Ræðan

Var búin að lofa einhverjum að setja þetta inn hér ...

Sjómannadagurinn. 2008

Það er sjómannadagur, og pabbi er heima. Hann er alltaf heima á sjómannadaginn.   veðrið er fallegt, sól og heiður himin og ég er komin í sparifötin og sportsokka. Þvegin og strokin. Gummi og Þórður bróðir eru heppnir, þeir eru í síðbuxum því Þó að sólin skíni er svöl norðangola sem strýkur bera fótleggi. Skrúðganga með pabba frá bryggjunni að kirkju, í sjómannadagsmessu.  Þetta er líka eini dagurinn sem hægt er að fara með honum á bryggjuna, án þess að það þurfi að stoppa og tala við alla karlanna sem verða á vegi okkar til  að ræða veðrið, aflabrögð, daginn og veginn. Hann verður að ganga með okkur í skrúðgöngunni. Leiðin niður á sjósand á sunnudögum í gamla daga gat tekið langan tíma með pabba, en þangað fórum við reglulega til að fleyta kerlingar. Eftir hefðbundna messu er drukknaðra sjómanna minnst við minnisvarðann. Þar eru nöfn manna sem lögðu allt í sölurnar til að færa björg í bú, menn sem gerðu sjómennskuna af ævistarfi.    Hátíðarbragur er yfir bænum okkar, fánar blakta hvarvetna við hún.

Mamma fer ekki með okkur í messu, hún er heima að elda stórsteik í tilefni dagsins, líklega lambahrygg með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli. Eftir matinn er kappróður og síðan hefst dagskrá við sundlaugina, stakkasund, björgunarsund, jafnvel reiptog og fleiri leikir. Þar er barist um Alfreðs- stöngina. Seinna um daginn er fótboltaleikur milli sjómanna og landmanna. Og auðvita held ég með sjómönnunum. Pabbi er að keppa í fótbolta, einhversstaðar í bænum tókst að fá lánaða fótboltaskó nr. 46. Mér finnst pabbi minn bestur. Kaffisala slysavarnardeildar kvenna og dansleikur fyrir fullorðna fólkið eru fastir liðir.  

Þegar ég var lítil, var tvennt í lífinu sem ég ætlaði ekki að gera, ég ætlaði aldrei að reykja og ekki giftast sjómanni. Mín börn áttu að hafa sinn pabba heima.. alltaf. Hún var oft löng, biðin eftir að pabbi kæmi í land, og stoppaði þá nokkra daga. Þá voru líka margir sunnudagar í röð, veislumatur, og alltaf reynt að gera eitthvað skemmtilegt, tíminn notaður til hins ítrasta og  andrúmsloftið var einhvern vegin öðruvísi. Ekki skemmdi það heldur að maður gat dobblað pabba um eitthvað sem mann langaði í en þorði ekki að spyrja mömmu um.  Ég man að einu sinni þegar pabbi var að fá sér kaffi í eldhúsinu áður en hann færi á sjó, skriðum við Gummi með snæri undir borðið og bundum fætur hans fastar við stólinn. Það dugði ekki til, á sjóinn fór hann.Ég giftist sjómanni þegar ég var 18 ára. Ég byrjaði líka að reykja en það er nú önnur saga. 

Ég fór nokkrum sinnum  með Willa afa á færi, og fannst alltaf gaman fyrst, en iðulega þurfti að fara með mig í land vegna sjóveiki. Ég er einnig svo fræg að hafa farið á Hrefnuveiðar, þegar ég var í tilhugalífinu með konna. Við fórum frá Árskógssandi um miðnætti og var mér sagt að fara í koju svo ég yrði síður sjóveik, sem og ég gerði. Ég vaknaði við það að skipstjórinn, kallaði á okkur að koma upp og halda í sporðinn á Hrefnunni meðan hann skyti hana. Ég þurrkaðist upp úr kojunni, og kallaði á strákana, en þeir hreyfðu sig ekki, vissu sem var að þannig veiðir maður ekki Hrefnu. Ég skammaðist mín svolítið lengi á eftir, að hafa ekki áttað mig strax á hvað þetta var vitlaust.  

Það er ekki hægt að tala um sjómenn án þess að minnast á sjómannskonuna. Mér verður oft hugsað til þeirra þegar ég heyri ungar mæður kvarta, að þær hafi svo mikið að gera, hvort amma geti nú ekki tekið krakkana um helgina svo unga parið geti haft það rólegt og næs, eða skroppið eitthvað í tilbreytingu. Þær hefðu líklega þegið sjómannskonurnar, sem voru einar með krakkana og heimilið mánuðum saman, þegar allir voru á vertíðum, og menn komu ekki einu sinni heim á mánaðarfresti eins og togararnir gera þó í dag. Hver kannast ekki við að hafa þurft að falsa nafn eiginmannsins á einhverja pappíra, vera bæði mamma og pabbi, kunna að mála, bora, negla, skipta um kló og nota drullusokk og svo mætti lengi telja. Sjómenn eru sannarlega hetjur, en það eru konur þeirra ekki síður. 

Einhverra hluta vegna datt mér sjómannskona í hug þegar ég heyrði þennan brandara…Þrír menn sátu saman og voru að monta sig af því hvernig þeir höfðu látið nýju konurnar sínar fá skyldur og verkefni heima fyrir.

Sá fyrsti hafði gifst konu frá Noregi og hann hafði sagt henni að hún ætti að þvo upp og þrífa húsið. Það tók nokkra daga en á þriðja degi kom hann heim í hreint hús og uppvaskið búið og frágengið.


Annar maðurinn hafði gifst konu frá Danmörku. Hann hafði skipað konu sinni að sjá um öll þrif, uppvask og eldamennsku. Fyrsta daginn hafði ekkert gerst, annan daginn hafði það aðeins skánað og þann þriðja var húsið hreint, uppvaskið búið og svaka steik og meðlæti í matinn.

Þriðji maðurinn hafði gifst konu frá Íslandi. Hann sagði henni að hennar verk væru að halda húsinu hreinu, sjá um uppvaskið, slá garðinn, þvo þvott og elda heita máltíð í hverjum matmálstíma. Hann sagði að fyrsta daginn hefði hann ekki séð neitt, annan daginn sá hann ekki neitt en á þriðja degi minnkaði bólgan aðeins svo hann sá aðeins með vinstra auganu, nóg svo hann gat útbúið sér eitthvað að borða og sett í uppþvottavélina! 

Hjónabönd sjómanna einkennast ekki af leiðindum og vana. Hvernig væri það líka hægt þegar menn eru að koma og fara allan ársins hring og nýjabrumið fer aldrei af, það verður aldrei neitt venjulegt. Jól í hverri inniveru og skemmtilegheit.  Ekki hægt að fá leið á makanum þar sem hann er sjaldnast heima. Það er alveg klárt að það voru ekki sjómannshjón sem fóru til hjónabandsráðgjafa eftir 20 ára hjónaband. Og þegar ráðgjafinn spurði hvað væri að, hóf konan raust sína og var mikið niðri fyrir. Í góða stund hélt hún áfram og kvaðst vera einmanna, afskipt, í ástlausu sambandi og taldi allar raunir sínar í þau 20 ár sem þau hefðu búið saman.Þegar ráðgjafanum fannst nóg komið stóð hann upp og gekk fram fyrir skifborð sitt, bað konuna að standa upp og kyssti hana innilegum kossi. Karlinn varð ekki þetta litla hissa og konan settist niður eins og í leiðslu.Ráðgjafinn sagði: ,,Þetta er það sem konan þín þarf á að halda. Þetta verðurðu að gera að minnsta kosti þrisvar í viku. Getur þú gert það”.Maðurinn svaraði að bragði: ,,Ja, ég get skutlað henni hingað á mánudögum og miðvikudögun, en á föstudögum er ég upptekinn við að veiða.

Þó margt hafi breyst í gegnum árin í bænum okkar, félög og klúbbar lagt upp laupana eða lagst í dvala, getum verið mjög stolt af því, að hér í Ólafsfirði hefur sjómannadagurinn haldið sjarma sínum og hátíðleik í gegnum árin.  Hann er enn með sama hefðbundna sniðinu og þegar ég var að alast upp, en er orðin mun veglegri og meira í hann lagt en áður, þökk sé áhugasömum og duglegum sjómönnum. Þeir eru flestir hverjir þátttakendur á einn eða annan hátt, og leggja nótt við dag í að undirbúa helgina,  sem nú er orðin sannkölluð fjölskylduskemmtun, þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Í nágrannasveitarfélögum okkar eru hátíðarhöld nánast að leggjast af vegna þess að enginn fæst til að gera það sem gera þarf.

 Sjómannadagurinn gegnir margvíslegu hlutverki í samfélaginu og á sér varla hliðstæðu í nokkru öðru þjóðfélagi. Því megum við aldrei gleyma að  þjóðfélag okkar sem nú á allra síðustu árum hefur tekið miklum breytingum, var byggt upp á einni atvinnugrein… sjávarútveginum,… enda eru sjómenn og úterðamenn  stoltir af starfi sínu, og mega svo sannarlega vera það.  Í öllu tali um stóriðjur, banka og hátækniðnað,  skulum við aldrei gleyma  því.

(Árið 1939 efndi sjómannadagsráð til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadaginn. Magnús Stefánsson hlaut 1 verðlaun fyrir ljóð sitt Hrafnistumenn, við lag eftir Emil Thoroddsen. Þetta ljóð og lag er nú einkennissöngur sjómannadagsins.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn
þó að töf yrði á framsóknarleið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr
eftir seglskipið vélknúin skeið.
En þótt tækjum sé breytt
þá er eðlið samt eitt
eins og ætlunarverkið er sjómannsins beið. )
Og af því að Ægir vinur minn og félagar á Sibbunni eru svo sjúkir í að vera í útlöndum og fara á hverjum vetri til Noregs, að kaupa jólaskraut…allavega Ægir, Þá verð ég að segja ykkur frá Íslendingnum og Norðmanninum sem voru á kaffihúsi á íslandi

Íslendingurinn var að borða brauð með ávaxtasultu og Normaðurinn var með tyggjó. Normaðurinn gengur að Íslendinginum og spurði: "Borðar þú skorpurnar á brauðinu"?
-Íslendingurinn: "Já auðvitað. Af hverju spyrðu að þessu".
-Normaðurinn: "Ekki við í Noregi. Við sendum þær í  endurvinnslu og  búum til brauð úr þeim og sendum til Íslands". Eftir dálitla stund kom Normaðurinn aftur og spurði: "Hvað gerir þú við híðið af ávöxtunum þegar þú borðar ávöxt".
-Íslendingurinn: "Auðvitað hendum við því í ruslið".
-Normaðurinn: "Ekki við. Við sendum það í endurvinnslu og búum til ávaxtasultu úr því og sendum hana til Íslands". Nú var Íslendingnum nóg boðið og sagði: "Hvað gerir þú við smokkana þegar þú ert búinn að nota þá"? –
Normaðurinn:"Auðvitað hendum við þeim í ruslið".-Íslendingurinn: "Ekki við. Við sendum þá í endurvinnslu og búum til tyggjó úr þeim og sendum til Noregs".

Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

frú Sigríður Guðmundsdóttir

  Þú er rosalegur penni mikið er þetta flott ræða hjá þér 

  Þú mátt vera stolt kona að hafa komið þessari ræðu svona glæsilega frá þér 

       bestu kveðjur til þín sigga
 

Sigga Dalvík (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 00:24

2 identicon

Þakka þér fyrir nafna á Dalvík. Finnst bara gaman að semja og halda ræður, fólkið mitt segir að þetta sé líklega athyglisbrestur.. hehehe. Kveðja..

Sigga Guðm (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 08:39

3 identicon

Alveg frábær ræda ég verd ad segja þad :) enda vissi ég ad þú myndir taka þetta med stæl :) ég sagdi líka alltaf ad ég ætladi sko ekki ad eiga sjómann en hlutirnar bara fara ekki alltaf eins og vid ætlum :) og fékk ég hörkuduglegan sjómann :) knús knús

silla DK (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband