20 ár frá skriðuföllunum í Óafsfirði

Í gær voru 20 ár liðin frá skriðuföllunum hér í Ólafsfirði eftir mestu rigningardaga í manna minnum. Man eins og gerst hafi í gær þegar Konni kom heim og sagði að ég yrði að koma smá rúnt með honum, því götur bæjarins væru á floti, og græn svæði orðin að tjörnum. Ég hafði ekki farið út í 3. daga, var heima að pakka niður því við vorum að flytja inneftir og ég að fara í skóla.

Tókum krakkana, Sigurð Óla 8 ára, Freyju 4 ára og  Elís Hólm, bróðurson minn sem var hjá okkur í heimsókn og tróðum þeim í pikkuppinn tengdapabba sem við vorum með í láni vegna flutninganna, ég var með Lenu Margréti  að verða eins árs, í fanginu frammí og keyrðum um bæinn.. og vá.. vá .. Konni var sko ekki að skrökva , það var allt á floti.

Keyrðum út að ruslahaugum til að snúa við, er þangað var komið byrjaði Sigurður Óli að öskra aftur í,  ég sagði honum að hætta, en hann gerði það ekki, svo ég leit við og sá þá að fjallið var bara að koma niður og Elís sem var fimm ára sagði.. snjóflóð.. hafði örugglega aldrei heyrt orðið aurskriða.. Konni náði að snúa bílnum þannig að skriðan kom beint aftan á okkur og síðan sigldum við útaf veginum í rólegheitum og niður bakkann. Man sérstaklega eftir ískrinu þegar stórgrýtið var að nuddast í bílinn.. Þetta gerðist afskaplega hægt allt saman og við vorum eins og bátur í ólgusjó, vögguðum til og frá.. Björgunarsveitin var komin eins og skot, enda var bíll á undan okkur sem slapp við skriðuna, Dísa og Trausti. þau brenndu strax niður í bæ og létu vita.

Man að það var frekar erfitt að komast út úr bílnum og þurfa svo að klöngrast í drullu og grjóti sem náði manni upp í mitti, til að komast í björgunarsveitarbílinn, en þessar elskur hentu sér í drullumallið til að hjálpa okkur að komast í skjól með krakkana og auðvita þurfti að halda á þeim yfir skriðuna. Mér fannst ömurlegt að setjast inn í björgunarbílinn svona agalega drullug. Enginn meiddist, Lena fékk eina skrámu á kinnina og hef ég líklega rekið nögl í hana.

Þegar við komum svo á Aðalgötuna er stóra skriðan nýfarinn og aurinn flýtur niður brekkuna. Það var alveg ömurlegt að horfa á drulluna leka svona yfir bæinn sinn.

Heinsunarstarf gekk vel og leið ekki á löngu þar til bærinn var orðinn hreinn og fínn á ný.

Gott að rifja þetta upp og þakka fyrir að engin slys urðu á fólki í þessum hamförum.

Ætla að eiga góða helgi, á menningarnótt á Akureyri  til Freyju og Harðar, en hef ekki séð þá englabossa í hálfan mánuð sem er allt of langur tími, fyrir mig að minnsta kosti.

Góða helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Ólafsfirðingar voru fljótir að taka til hendinni eftir þetta, mig rámar bara í þetta en fékk að sjá myndband hjá Hilmari heitinum frá þessu öllu saman.

Arnar er bara bestur, hann er Logi, Sigfús og Óli lagðir saman í eitt

Þórgunnur mágkona (IP-tala skráð) 30.8.2008 kl. 12:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband