Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Kápukórinn startar þetta árið

Mikið svakalega var gaman í gær. Þá fór umboðsmaður kápukórsins með okkur kórfélagana til Akureyrar í æfingaBÚÐIR. Það er skemmst frá því að segja að við skemmtum okkur konunglega allan daginn, Við Gulla fórum í plokk og lit, kíktum í búðir, versluðum brækur, varaliti kjóla peysur skart.

Farið var með okkur Ólöfu í skoðunarferð í ÁTVR og þar hefur nú margt breyst skal ég segja ykkur. Þar geta viðskiptavinir lagst í gólfið og raðað upp á nýtt í hillur og skipt um sortir í kössum og kippum. Það gerðu í það minnsta kórfélagar mínir. dunduðu sér við að blanda sortum í hvítvínskippum, því þær vildu kaupa allar sortir. Gulla hinsvegar sem er alvön búðarkona fór að raða betur í hillurnar, skellti sér niður á hnéin, gott ef hún bað ekki afgreiðslumann á launum þarna um tusku til að þurrka af í leiðinni.. Því miður var kortið í myndavélinni fullt á þessu augnabliki (Var ekki enn búin að taka út Madridarferðina) því miður enn og aftur þvi þetta var óborganleg sjón að sjá hana á fjórum fótum þarna og Þuru og Snjólaugu að skipta sortum í kippunum.. Gulla frænka mín gaf mér eina bokku, eins og hún kallaði það. Henni fannst það gaman, litla rauðvinsflösku í sósu, en ég varð að lofa að gefa þeim úr henni ef þær yrðu uppinskroppa í ferðinni..

Fórum til Halldóru hálfsystur og sungum, einnig í Hagkaup fyrir Stínu og Önnu Maríu, fyrir Maron því hann var ekki heima fyrst. Enduðum hjá Ágústu og Kidda áður en við fórum heim, komumst að því að það er kannski heldur snemmt að syngja jólin í nóvember, því fólk fékk ekki svo mikið sem tár í augun, svo sprungum við úr hlátri í seinasta gigginu, held að það hafi verið komið of mikið söngvatn í kórsystur mínar.. 

Írskt kaffi tertur og fleira á Bláu könnunni, kvöldmatur á Strikinu, svo keypum við okkur agalega flottar eldrauðar spanjólur til að skarta með öllu hinu á þorláksmessu þegar við förum að banka upp á hjá vinum og ættingjum.

Elsku vinkonur.. Ólöf, Gulla, Þura, Snjólaug, Halldóra hálfsystir.. Takk fyrir ógleymanlegan dag fyrir ykkur, ég verð sjálfsagt búin að gleyma honum fljótlega, en þá rifjið þið hann upp fyrir mér.. Maður týnir ekki svona vini af trjánum og ég er afar þakklát fyrir að eiga ykkur að. Þetta er ekki djók..

Ég er svo glöð í hjartanu..


Snjóskaflar í stofunni..

Þá er enn ein helgin að baki. vitlaust veður á aðfaranótt laugardags og gott að kúra í rúminu. Var þó alltaf að vakna við ýlfrið í gluggunum og veðrinu, og var með einhvern vara á mér því þeir feðgar voru á leiðinni frá Langanesi til Húsavíkur, miðað við veðrið hjá mér hefur ekki verið gaman á sjó þessa nótt. En það kom morgunn og ég skreiddist á fætur enda stóra kóræfingahelgin að byrja.

Þegar ég kom fram úr svefnherberginu fann ég þvílíkan skítakulda leggja niður stigann svo ég dreif mig upp.. Ó mæ godþþ Sjónvarpsholið var fullt af snjó. Gluggin sem er í norður svokallaður veltigluggi hafði opnast og búið að snjóa inn alla nóttina. Ég stökk niður aftur i brækur vettlinga og húfu, tók með mér fötur og skóflu og byrjaði að moka. Þetta var alvega fáranlega ótrúegt. Skálin með fjarstýringunm  á borðinu var full af snjó, svo ég byrjaði að veiða rafmangsdótið uppúr og koma því á ofn. Hillur sófi gluggatjöld og allt í snjó, svo ég nefni nú ekki parketgólfið. En það var enginn bleyta, bara snjór, svo þið getið ímyndað ykkur kuldann inni. Náði að moka allt upp, þurrka gólf og henda pullum teppum og koddum í þvottahúsið áður en ég mætti svo uppgefin, en glaðvöknuð á kóræfingu kl 10.  Var auðvita enn með húfuna og vettlingana í úlpunni þegar ég mætti og kórfélagarnir spurðu: Hva.. er svona kalt úti?. Nei sagði ég, bara inni hjá mér..hehe  Útskýrði síðan fyrir þeim morgunverkin mín.

Eftir æfingu seinnipartinn var enn skítakuldi í húsinu enda allt orðið gegnkalt.. Og þá var nú gott að kveikja upp í kamínunni og hita vel upp.

Konni kom heim á laugardaginn og hófst handa við að flísaleggja, tekst líklega ekki að klára í þessari lotu, en það er nú allt í lagi. Fer líklega á sjó í dag og Siggi auðvita líka.

jólafundur slysó var svo í gær. Fyrsti í jólum hjá okkur með hangikjöti og alles og dásamlegum eftirréttum. Spiluðum svo bingó og fengum jólapakka. Mjög gaman.

Mál að linni.


Brussan á Akureyri

Fór til Akureyrar í gær, með kvefið og sparitónleikaföt í poka, og miða sem sagði til um allt það sem ég ætti að gera áður en ég færi heim. kaupa jólagardínuefni, fúgu og lím, eikarhnúð, gardínujólaseríu, kaffi í Bónus, tónleikar í höllinni með Guðrúnu Gunnars og Friðriki Ómari. Hitta Freyju mína og fara með henni á kaffiús (það stóð nú reyndar ekki á miðanum þetta með kaffihúsið).

Fór í RL mollið að skoða efni og þar varð á vegi mínum í miklum þrengslum, lágvaxin og mjög grönn kona af erlendum uppruna. Svo óheppilega vildi til að ég steig ofan á fótinn á henni og ýtti við henni um leið svo hún datt hálfpartinn, hefði sjálfsagt legið kylliflöt ef ég hefði ekki staðið ofan á henni. Maðurinn hennar var með henni og ef augnaráð gæti drepið væri ég ekki að blogga núna... Ég er frekar stór kona og gleymi oftast að líta niður fyrir mig og nú er orðið svo mikið af litlu fólki á Íslandi að ég verð að taka mér taki og hætta þessum brussugangi.  Var búin að velja efni en henti öllu frá mér og kom mér út, svo ég gæti hlegið einhversstaðar án þess að til sæist.. Gott að enginn var með mér.

Um daginn keyrði ég Konna til Ak. og ákváðum við að fá okkur hamma áður en við kveddumst, hann var að fara austur karlinn. Þetta var í hádeginu og við fórum sjoppu og einhvern veginn gerðist það að þegar ég steig inn í sjoppuna, festi ég hælinn á skónum í mottunni, og skall niður á fjórar fætur og svo rann mín bara eftir gólfinu í áttina að fólki sem sat í rólegheitum og borðaði hádegismatinn, og það í nýju kápunni frá Madrid. Fyrir aftan mig heyrði ég svo í mínum elskulega eiginmanni: Meiddirðu þig Sigga mín... "já.. þetta var helvíti vont"  svaraði ég og var enn á fjórum fótum á gólfinu og byrjuð að hlægja, gat ekki stillt mig og heldur ekki staðið upp því þá þurfti ég að líta á alla áhorfendurna sem líka voru að springa úr hlátri. Þvílíkur auli sem ég er.. En ég þarf vart að taka það fram að ég að endingu staulaðist á fætur og út. Við borðuðum þennan hádegisverð í bílnum.

Ég keypti ekki gluggatjöld í RL mollinu og fór ekki á tónleikana. Var orðin drulluslöpp um kvöldmat og kom mér heim, en fékk nú samt gluggatjöld í ferðinni.

þannig var það nú.

 


Forvarnir-- Forvarnadagur..

Þegar ég vaknaði í morgunn, kveikti ég á útvarpinu. Á meðan ég lá og hugsaði um hvort ég ætti að drullast fram úr rúminu, heyrði ég í forseta vorum Ólafi Ragnari. Hann var í viðtali vegna þess að í dag er forvarnadagurinn og hann er í forsvari eða verndari dagsins, held ég. Hann var að tala um hvað við værum feimin um að tala um eiturlyfjavandann og helst allir þjóðfélagshópar vildu bara sópa þessu undir stól og fela, gleyma, að við skömmuðumst okkar fyrir þetta vandamál sem er það alvarlegasta sem við stöndum frammi fyrir. Hann nefndi að þau hræðilegu banaslys á sem verða á hverju ári á vegum landsins væru allt of mörg og allir væru tilbúnir að gera eitthvað til að stemma stigu við því, en benti svo á að mun fleira ungt fólk deyr á ári hverju úr neyslu áfengis og eiturlyfja.

.........VISSIR ÞÚ ÞAÐ??............

Ég lá enn í rúminu og velti þessu fyrir mér, rifjaði upp að í gær laug ég tvisvar.. já.. tvær manneskjur spurðu mig í gær hvort örverpið væri á sjó og ég brosti og og sagði já.. vitandi það að hún væri einhversstaða allt annarsstaðar, var reyndar ekki alveg viss, hvar á landinu, en hún fór suður á DJ eitthvað fyrir hálfum mánuði og var ekki komin norður aftur í gær. (Kom í gærkvöldi). Vissulega hefur þetta ár verið með allra besta móti, ég má ekki gleyma því, en hún er pottþétt komin í helvítis ruglið einn ganginn enn, ég vissi það vel, þekki mitt heimafólk orðið ágætlega, taktana og ferlið allt sem fer í gang.

Ég er orðin mjög leið á þessu..ójá.. Hvers vegna laug ég? skammaðist ég mín? eða var ég ekki tilbúin í annaðhvort, samúðarhjalið, eða .. hvernig stendur á þessu að hún gerir þetta stelpan.. Halló ..halló.. er einhver heima.. hún er fíkill.. þú sem étur allt of mikið ..hættu því.. þú sem bryður læknadóp.. hættu því.. þú sem reykir.. hættu því.. þú sem drekkur bara rauðvín og bjór með matnum  (stundum ansi langir matartímar) .. hættu því.. þetta er allt óhollt.

Drykkja íslendinga hefur aukist um 100% á síðustu 10 árum, ekki í lítratali heldur í alkóhólmagni, það segir okkur að blessaður bjórinn varð ekki til þess að minnka drykkjuna. Ég spyr mig að því hvernig verða tölurnar þegar áfengið verður komið við hliðina á mjólkinni í búðinni. Hef svo sem engin svör við því en hef á tilfinningunni að það verði nú ekki til batnaðar.

Alkólismi er fjölskyldusjúkdómur og þessi færsla hjá mér sýnir glögglega að ég er haldin þessum andskota. Ég hef nú orðið tilhneiingu til að láta eins og allt sé í sómanum þó svo að neysla örverpisins sé að gera út af við mig. Þessa dagana er ég að drepast í bakinu og kvefuð, alltaf einhver flensuskítur í mér. Skil bara ekkert í því hvert vöðvabólgan í öxlunum hefur farið. Hún hefur herjað á mig í hvert sinn sem fall, eða eitthvað neyslutengt hefur hrunið yfir fjölskylduna, þá fæ ég þursabit og vöðvabólgu. Gruna að axlarbólgan hafi farið í Konna í þetta skiptið. Þetta er nefnilega svo mikið andlegur sjúkdómur, svo ég tali nú ekki um hversu líkamlegur og félagslegur hann er.

Jæja nú er ég búin að blása aðeins svo kannski fer ég að hressast upp úr þessu..Annars fyrir utan þessi leiðindi er allt í gúddi..hehehGrinFrown  hehe. Nóg að gera síðustu helgi, hjálpuðum Freyju og Herði að flytja á föstudag, kláruðum eldhúsinnréttinguna á laugardag, svo nú á BARA eftir að flísaleggja. Á sunnudag fórum við í bæinn og kláruðum að flytja og þrífa gömlu íbúðina Freyju og enduðum í dásamlegu hangikjöti hjá Lilju og Mundu.

Harpa Hlín og Konni litli eru að hressast, eftir kirtlatöku og kvef, Konni og Siggi á sjó og elskan hún Lena komin norður, og bíður eftir plássi á uppáhaldsspítalanum okkar....Vogi...

Nóg af bulli í bili.

Hvernig væri að kvitta á síðuna af og til.. summa af einhverju er sama og samlagning. (svona til upplýsingar).

 


Tónleikatímar framundan..

Jæja, Nú er Ellen Helga búin að eignast litla systur, fæddist 10.11.  Hún er yndislega falleg litla prinsessan og mikið krútt. Gaman að skoða myndir af systrunum á síðunni þeirra. Ekkert smá stolt stóra systir og ánægð. Gruna að það verði ekki eins mikil ásókn í að koma norður á næstunni..hehe

HaloTIL HAMINGJU LÓA MÍN, ARNAR OG ELLEN HELGA Halo

Annars bara allt gott að frétta, ég er staðin upp úr flensunni og Sigurður Óli og Vala að verða búin að koma sér fyrir í firðnum og Freyja búin að fá afhent nýja húsið og flytur inn á næstu dögum. Hún er reyndar að læra undir próf og klárar það líklega fyrst, hún kann svo vel að forgangsraða stelpan.

Var í jólahreingerningum hjá múttu í gær, svo nú getur hún byrjað að skreyta ef hún vill, en henni fannst það nú heldur snemmt, minnti mig á að það væru nú einn og hálfur mánuður til jóla. Ég get líka farið að henda upp seríum, búin að vera eins og stormsveipur í þrifum. Konni hringdi í mig á sunnudag og sagði að ég gæti farið að setja útiljós, búið væri að kveikja á fyrsta húsinu í firiðinum. Ég vissi undir eins hvaða hús það væri Gísli Rúnar er bráðlátasti Ólafsfirðingurinn og er það bara skemmtilegt. Veitir ekki að lýsa upp svartasta skammdegið, tala nú ekki um þegar enginn er snjórinn.

Fór á stórskemmtilega tónleika hjá South River band á föstud. kvöld. Alveg magnaðir þessir kleifapönkarar, spila svona folka-músik með gítar, banjó fiðlu, harmonikkku, kontrabassa o.fl. Fiðluleikarinn Matti heillaði mig gjörsamlega, þvílíkur snillingur drengurinn og þeir allir hinir, hefði getað verið mikið lengur, en þeir spiluðu í tvo og hálfan tíma.  TAkk fyrir mig.

Á laugardag fór ég með mömmu í Afmæli félags eldri borgara (félagið 20 ára) Það var mjög fínt og góður matur hjá þeim kerlum.

Simmi frændi minn! Takk fyrir að kvitta í gestabókina.. Ertu í landi núna?? heima í baunalandi?? 

Konni og Sig. Óli á sjó, einhver reytingur hjá þeim.---- Mál að linni.


Flensu-skítur í fyrir-rúmi..hehe

Búin að liggja í helv. flensuskít síðan á laugardagskvöld, já flensuSK'IT ef þið skiljið hvað ég meina. Var eins og skotin niður á  laugard. kvöld með magakrampa ógleði, hita köldu bein og hausverk. Frekar leiðinlegt þar sem 3 barnabörn mín voru í gistiheimsókn hjá ömmu. Ellen kom að sunnan á fimmtudag, og Orri kom svo á laugard, e.h. Harpa Hlín er nú flutt ásamt foreldrum sínum og Konna litla til Ólafsfjarðar, okkur til mikillar ánægju og kom okkur eiginlega á óvart, þar sem tengdadóttirin átti frumkvæðið af því að prufa þetta. Það á svo eftir að koma í ljós hvort hún þolir átroðning tengdamömmu, sem ætlar alltaf að vera á stigaskörinni og í mat og kaffi, fer kanske líka með þvottinn minn til hennar ef verður of mikið að gera hjá Naglakerlingunni...heheheSmile

Harpa gisti auðvita um helgina hjá ömmu ásamt systkynum sínum, en það var nú ekkert sérlega gaman á sunnudeginum þegar amma komst ekki fram úr rúmi og Lena skilaði svo öllum til síns heima seinni partinn, Ellen í flug suður og Orra á Ak. Við fórum samt í heimsókn til Lísu, Rúnars og prinsessunnar um kvöldmat á lau- (ég hef fundið það á mér að það væri best að drífa það af) og hún er ekkert smá yndisleg og falleg litla snúllan, svo smá og fíngerð, rétt eins og mamma sín, en hún lítur út eins og pabbi sinn.Smile

Freyja og Hörður eru búin að kaupa sér yndislega íbúð í Grundargerði á Ak. 2 hæða raðhús sem þau fá afhent á föstudag, svo það eru bara allir að flytja og gaman að því. Hún kemur hingað um helgina með annað hönnunarsaumanámskeið í skólann, þar sem ekki komust allir síðast sem vildu og hef ég heyrt að sumir hefðu viljað fara aftur, þetta tókst mjög vel og voru stelpurnar mjög ánægðar með námskeiðið og flíkurnar sínar.Smile

En nú er ég komin til vinnu aftur og alltaf að gera neglur, svo þið sem eruð að pæla, endilega hafa samband, svo ég geti fundið tíma fyrir ykkur.

Konni og Lena á sjó, loks eftir langa brælu og viðgerðir í bátnum. Siggi líka á sjó að ég held..

Gott í bili


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband