Völvuspáin 2009

Árshátíðin okkar slysókvenna var á laugardaginn og mættu rúmlega 100 manns í Tjarnarborg. Bara skemmtilegt þó margt hafi farið aðeins úrskeiðis, þá lærum við bara af því og gerum betur næst..hehehe:) Set hér völvuspána til gamans, en það er nú bara þannig að í gegnum tíðina hefur nánast allt ræst sem spáð hefur verið..

 Völvuspá 2009 Jæja elskurnar mínar. Hér er ég komin 18 árið í röð að spá fyrir  um komandi atburði ársins 2009. Eins og þið vitið hef ég oftar en ekki reynst sannspá svo þið eruð agalega heppin að eiga mig að. 

Það er enginn krepputónn eða barlómur í mér frekar en fyrri daginn, þrátt fyrir ástandið, því þegar ég rýndi í kristalskúluna mína áður en ég kom hingað og kíkti á landið okkar, sá ég bara svart, en þegar ég gáði betur sá ég lítið ljós í myrkrinu og viti menn. ljósið var yfir firðinum okkar. Ójá. 

Skærast skín hótelið okkar. Þar ráða nú ríkjum Hlynur og Helga og er skemmst frá því að segja að það verður vitlaust að gera. Munu þau hjónakornin bjóða upp á matreiðslunámskeið a- la- íslenskt. Hingað munu hópast fyrrverandi auðjöfrar, bankamenn og fyrirfólk úr borg óttans, henni Reykjavík, að læra að elda grjónagraut og gera slátur, rúgbrauð og sjóða fisk. Þar sem engir peningar eru eftir til að fara út að borða.  Á kvöldin verða svo kvöldvökur þar sem dansað verður vikivaki, vals og ræll og munu starfsmenn og eigendur Hótelsins sjá um kennsluna í  þjóðbúningum að sjálfsögðu.Uppselt verður á námskeiðin út árið og biðlistar myndast í sláturtíðinni í haust. 

Í búðinni okkar Samkaup- Úrval verður sama sagan, brjálað að gera, því hingað streyma íslendingar í hrönnum til að finna hina einu sönnu peningalykt, sem landinn var búinn að gleyma, nema við hér í firðinum. Allir versla svo eitthvað í leiðinni, bara til að geta leyft ættingjunum að þefa þegar heim kemur, allir vilja finna peningalyktina. Ásgeir Logi mun sjá til þess að ilmurinn frá Norðlandía hverfi ekki í bráð og verður hægt að kaupa fýlu í fernum, í búðinni, sjoppunni og Höllinni. 

Sparikassinn okkar stendur sig ágætlega á árinu, þar sem hann er svo lítill og lítið í honum gleymdist að ríkisvæða hann. Þar sluppum við með skrekkinn. Til að bæta eiginfjárstöðuna verður Óskar hennar Júlíönu með fé á fæti á föstudögum og Gummi, Óli Hjalli og Eggert leggja inn skjátur á mánudögum. Leysist þar með líka húsnæðisvandi fjárbænda, þar sem kjallarinn í sjóðnum verður sannarlegt fjárhús. Engin lykt mun finnast af þessu nýja fé í bankanum þar sem lyktin frá Norlandía yfirgnæfir allt.Fjárbændur munu þó færa sig yfir í fjárhúsin á Syðri Á í Desember og bjóða gestum og gangandi á  sjónleikinn „Jólaguðspjallið“ sem mun ganga fyrir fullu fjárhúsi langt fram á þorra.  

Þá eru það blessaðir hestamennirnir okkar, af þeim verður það helst að frétta að þeir hætta í hestabransanum – allt verður saltað og fryst. Það kom nefnilega á daginn eftir marga fundi, rifrildi og leiðindi… að þeir hafa engan áhuga á hestum… Þeir hafa bara áhuga á hesthúsum, svo að á vordögum munu flytja í hesthúsin litfagrir talandi páfagaukar sem skemmta eigendum sínum og rífast allan sólahringinn hvor við annan.  Gaman.. 

Göngin okkar munu verða kláruð eins og til stóð. Grétar, Tommi og Minný á saumavélinni munu taka að sér að  fóðra þau að innan með fínasta silki eins og þeir nota í líkkisturnar. Mun þetta auka ferðamannastrauminn svo um munar, og verða sannkallað frumkvöðlastarf sem eftir verður tekið. 

Á bæjarskrifstofunni er stanslaust stuð. Hrafn félagsmála mun taka alla stóla úr húsinu og setja palla í staðinn, skilaboðin eru skýr.. ástandið á starfsfólkinu var það bágborið að við það mátti ekki sitja lengur, heldur skuli allir standa og fara í  pallaleikfimi í tíma og ótíma þegar færi gefst. Eina vandamálið er Steini Ásgeirs… honum er bara lífsins ómögulegt að setja VINSTRI fótinn fyrst á pallinn og verður því göngulag hans orðið ansi hallærislegt í haust, þar sem hann æfir BARA HÆGRI hliðina. Hins vegar taka ALLIR eftir því hvað Jón Hrói er góður vinstra megin, svo góður að málið verður sett í nefnd og rannsakað sem sakamál. Upp kemst að Jón Hrói hefur verið að stelast á fundi hjá SAMFYLKINGUNNI… Meirihlutinn fær áfallahjálp. 

Björgunarsveitin verður í fýlu mestallt árið. Eftir að hafa getað leitað í gullkistur slysavarnakvenna í áratugi verður nú breyting þar á. Hin nýja stjórn slysavarnadeildarinnar eyðir öllu í djamm og dekur. Endalaus partý, veislur og ferðir kosta peninga og það litla sem eftir verður fer í viðgerðir á Sandhóli þar sem miklar brussur eru komnar í stjórnina sem brjóta a.m.k. eina hurð, tvo stóla og slatta af leirtaui á hverjum fundi.  Björgunarsveitin mun fara á fullt í að afla tekna. T.d munu strákarnir í sveitinni taka að sér barnapössun á kvöldin, vera með kaffisölu á hverjum sunnudegi og síðast en ekki síst verður hægt að leigja þá út með sér í verslunarferðir, og munu sjómannskonurnar hér í bæ nýta sér það í ystu æsar, að taka með sér pokastrák í stórmarkaðsferðirnar. Allt þetta mun gefast glimrandi vel.      

Á Hornbrekku verður allt morandi í hjúkrunarfræðingum, já allar komu þær aftur og það verður ekki þverfótað fyrir þeim og skiptast þær á að vera aðal... Eva, Rut, Birna og Sigrún. Verður svo vel mannað að Ásgeir læknir getur sofið fram að hádegi alla daga þar sem hjúkkurnar taka viðtölin, gefa stíla, taka blóðþrýsting og sprauta bæjarbúa eftir þörfum. Mér sýnist að doktorinn okkar muni bæta forgjöf sína í golfinu alveg helling á árinu. 

Kirkjukórinn blómstar sem aldrei fyrr í kreppunni. Slegist er um hvert sæti á æfingum og meira að segja eru kórfélagar farnir að mæta á réttum tíma til að fá sæti.. Líka Dísa og Brynja. Kirkjugestum fjölgar heldur hægar, en í haust sýnist mér allavega 17 mæta í messu, að Séra Mundu og meðhjálpurunum meðtöldum. 

Eins og þið hafið nú heyrt þurfum við hér í firðinum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, við munum hafa nóg að bíta og brenna, þjónustan verður í hávegum höfð og skemmtanalífið mun snúast um að skemmta hvort öðru eins og best verður á kosið, já gamla Ísland rís upp aftur, og við förum að slappa af í kapphlaupi um krónur og evrur, það eina sem skiptir máli er mannauðurinn þegar upp er staðið. 

Jæja elskurnar mínar, er þetta ekki orðið gott núna, þreytan er farin að segja til sín, En í almáttugs bænum farið varlega í kvöld, því hér eru margir andar á sveimi og gott ef einhverjir þurfa ekki að yfirgefa samkvæmið í fyrra fallinu.. svo gangið hægt um gleðinnar dyr.. við viljum ekki þurfa að segja í kvöld eins og konan forðum: 

Yfir kaldan eyðisand

ein um nótt ég sveima mikið

nú er horfið Norðurland

nú er ég komin yfir strikið 

Góða skemmtun og hittumst vonandi að ári. 

Lífið er dýrt

dauðinn þess borgum

drekkum í dag

iðrumst á morgun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flott völvuspá, mér finnst ég kannast við efnistökin, kveðja í fjörðinn.

Tóta (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 20:43

2 Smámynd: SIGGA GUÐMUNDS

Takk Tóta mín, enda ekki langt að fara og sækja efniviðinn í allar þínar flottu "gömlu" spár.. Kveðja í bæinn

SIGGA GUÐMUNDS, 16.3.2009 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband