2.1.2008 | 15:48
Gleðilegt ár !!!
Jæja, nýtt ár runnið upp með öllum sínum vonum og væntingum. Við hjónin settumst niður í gær og fórum yfir síðastliðið ár á hundavaði og komumst að þeirri niðurstöðu að það hafi farið betur með okkur en mörg árin á undan. bara besta árið s.l. örugglega 10 ár. Það er bara ein ástæða fyrir því, sú að börnin okkar hafa átt gott ár, líklega sitt besta í nokkur ár. Ekki þurfum við foreldar að óska annars en að fjölskyldunni líði vel og sé hamingjusöm. Við fengum fyrstu jólagjöfina og þá stærstu og bestu frá Lenu Margréti í byrjun desember.
Jólin voru bara yndisleg, þó maður hefði kosið að vera meira á náttfötunum og gera ekki neitt, en við fórum í eða héldum veislur, sjö sinnum á átta dögum, svo maður er vel á sig komin og hef ég ákveðið að borða bara skyr og fisk þessa viku.
Stórfjölskyldan var hjá okkur á Hlíðarveginum um áramótin, fyrir utan börnin mín, sem var mjög sérstakt að upplifa áramót án þeirra í fyrsta skipti. Sig. Óli Vala, Harpa og Konni voru hjá fjölskyldu Völu á Svalbarðseyri, Freyja og Hörður á Akureyri hjá sínu fólki þar, og Lena á Húsavík hjá Baldri, kærasta sínum og fjölskyldu hans.
Arnar og fjölsk, Þórður og fjölsk. og mamma voru með okkur Konna og ekki má gleyma Ellen Helgu sem kom norður á jóladag og Orri kom frá Ak. 30. des. og áttum við góð áramót eins og alltaf og sérlega gaman að fylgjast með Ellen og Orra sem eru orðin svo stór, hittast sjaldan en smella alltaf saman eins og þau hafi hist í gær. Það var brjálæðislega mikið sprengt á Hlíðarveginum og vissi maður ekki hvert maður átti að horfa á tímabili. Á nýársdag komu svo tengdaforeldrar mínir Freyja, Sig. Óli og fjölskylda í mat til okkar svo það má segja að við höfum endað hátíðina með stæl, með kýldan maga.
Ég sendi engin jólakort þetta árið, heldur annál til allra á jólakortalistanum. Læt hann flakka hér á eftir.
Enn og aftur ....Gleðilegt nýtt ár... þakka kærlega liðið ár samferðamenn mínir...
Kæru ættingjar og vinir, nær og fjær, til sjávar og sveita.Það hefur verið vani minn gegnum tíðina að setjast niður um miðjan nóvember með gott kaffi, kertaljós (og sígaretturnar) og skrifa á jólakort. Í ár gerðist það hins vegar að ég féll á tíma vegna mikilla anna og skipulagsleysis. Ákvað ég því að skrifa annál ársins 2007 og senda öllum á jólakortalistanum. Ekki láta ykkur detta í hug að minni mitt sé svo gott að ég muni hvað ég og mín léttgeggjaða fjölskylda höfum verið að bardúsa s.l. ár, ó--nei. ég fór að blogga í febrúar svo ég get rakið mig aftur til þess mánaðar.
Janúar: Sigríður byrjaði aftur í skólanum, eftir jólafrí, hef verið að taka eitt og eitt fag í fjarnámi og er að sjálfsögðu alltaf lang best ..eða þannig.
Febrúar: Freydís okkar þurfti að leggjast undir hníf í borg óttans og fórum við foreldrarnir með henni. Heimsóttum í leiðinn mínar yndislegu föðursystur Rósu og Siggu sem voru þá á Landakoti í afslöppun. Virkilega var gaman að hitta þessar elskur.
Mars: Konni minn fór í líkamsrækt með sinni heittelskuðu og verður það að teljast til eins af stórviðburðum ársins. Hann hefur reyndar ekki mætt aftur en þetta var þó byrjunin. Kannske fer hann tvisvar á næst ári.. Hver veit
Stærsti dagur ársins var 19. mars. Þá fengum við fjórða barnabarnið, þegar frumburður okkar og Vala eignuðust son, sem strax var nefndur Konráð Þór, afa Konna til mikillar gleði. Sannkallaður gullmoli sá litli drengur.
Apríl: Páskunum eyddum við systkynin og makar á Canaríeyjum með mömmu gömlu. Það var mjög skemmtileg ferð og kom mér verulega á óvart hvað bræður mínir voru stilltir og prúðir svo til allan tíman, þar til síðasta kvöldið er þeir drógu konna minn með sér í leit að nektarbúllum. konni vildi sko alls ekki fara, en lét sig nú hafa það . Mamma var líka mjög stillt... Fórum í páskamessu til Jónu Lísu frænku okkar þarna úti, það var frábært.
Maí: Konni hélt á nafna sínum undir skírn í stofunni okkar heima á Hlíðarveginum. Séra frænka okkar Jóna Lísa skírði drenginn. Yndisleg athöfn og margir gestir.
Við hjónin hófumst handa við að rífa burtu eldhúsið okkar og endurnýja. Vel gekk að rífa og setja upp nýja innréttingu sem undirrituð skrúfaði saman í stofunni. Skemmst er frá því að segja að það er enn smotterý eftir en þetta kemur... Vortónleikar kórsins okkar tókust vel, vorum við kórfélagar fegin að komast í sumarfrí.
Júní: Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að flytja ræðu sjómannadagsins í kirkjunni okkar. Í huga mínum var ég að flytja minningargrein um pabba minn sem ég skrifaði aldrei á sínum tíma. Í það minnsta var ég að heiðra minningu þeirra feðga þennan dag.
Júlí: Guðmundur Fannar bróðursonur minn giftist sinni heittelskuðu Bjarkey við yndislega athöfn í Grundarkirkju, þann 7. júlí. Blueshátíð var haldin í firðinum og vorum við dugleg að sækja allt sem í boði var . Fór í menningarferð til R- víkur og eyddi drjúgum tíma með Ellen Helgu barnabarni okkar við að skoða söfn og styttur, gömul hús og annað sem fyrir augu bar. Veðrið lék við okkur þessar vikur sem við eyddum í borg óttans. Á tólf ára edrúafmæli mínu 18. júlí fékk frúin svo nýjan fínan bíl, en Runni gamli var nú orðin óttalega druslulegur, gengur samt enn. Lena mun líklega sjá um að klára að keyra hann út.
Ágúst: Skruppum á Njáluslóðir og fórum túr á safnið á Hvolsvelli. Þvílík upplifun fyrir mig sem lá í Njálu og stúderaði í fyrravetur. Gekk svo langt að mig dreymdi Gunnar, Njál og syni um nætur og var dauðuppgefin á hverjum morgni, enda ekkert grín að þvælast með þeim. Konni tók við nýja bátnum Háey og kom honum til heimahafnar á Húsavík 17. ágúst. Er búið að ganga vel á sjónum hjá honum og ekki síður Sigurði Óla sem ræður ríkjum á Lágey.
September: Örverpið varð 20 ára þann 12. sept og var blásið til veislu, þar sem stúlkan var á heimaslóðum. Höfum ekki getað haldið afmæli hennar hátíðleg undanfarin ár vegna fjarveru afmælisbarnsins svo þetta var kærkomið tækifæri.
Október: Frú Sigríður skellti sér í naglafræðiskóla, vegna fjölda áskoranna. Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir að vera með svo fagrar og velskapaðar hendur og neglur eins og við Eva föðursystir. Hef ég verið að lappa upp á liðið með góðum árangri og allir eru glaðir. Við starfsmenn Alþingis skelltum okkur svo í fræðsluferð til Madridar í lok mánaðarins og var það auðvita frábær ferð. Mikið skoðað og lítið sofið, enda hef ég ákveðið að sofa bara (og drekka sherrý) þegar ég fer á Hornbrekku (Dvalarheimili aldraðra).
Við Jónína frænka fórum svo með Slysavarnakonur í óvissuferð í mánuðinum. Ferðin tókst í alla staði vel og hófum við ferðina í Bruggverksmiðjunni KALDA hjá Öggu mágkonu og Óla. og voru kerlurnar glaðar allan daginn. Svo vel stendur bjórinn KALDI með manni..
Nóvember: Æfingar, æfingar, æfingar, fyrir aðventutónleika. Neglur og meiri neglur eftir vinnu og lítill tími til jólaundirbúnings enn. Freydís okkar og Hörður flytja sig um set á Akureyri, kaupa stærri íbúð með saumaherbergi.
Sigurður Óli, Vala og börn flytja til Ólafsfjarðar, okkur gamla settinu til mikillar ánægju, höfum ekki fyrr haft barnabörn búsett hér, síðan Ellen Helga var pínu lítil, Ellen Helga býr í Reykjavík, og Orri á Akureyri, svo það er ekkert smá gaman að hafa Hörpu og Konna litla í firðinum fagra.
Desember: Tónleikar kórsins okkar tókust með miklum ágætum. Kápukórinn búin að koma saman og erum við klárar í sönginn á þorláksmessu, en þá förum við Gulla, Þura og Snjólaug í sparikápurnar, rauðu spanjólurnar og treflana, setjum á okkur perluveskin og bönkum upp á hjá okkar nánustu, (2-3 hús á mann) og syngjum jólaóskir til allra. Undantekningarlaust grætur fólk af hrifningu og verður að segjast eins og er að okkur finnst við vera afskaplega góðar manneskjur að söng loknum.
Jólaundirbúningurinn í hámarki og nokkrir kökudúnkar fylltust, skreytingar og jólaljós komust á sinn stað á Hlíðarveginum
24 desember.Kæru vinir og ættingjar
Mun reyna að skrifa jólakortin tímanlega næst, svo þið þurfið ekki að eyða öllu aðfangadagskvöldi við lestur.
Að lokum sendum við ykkur öllum bestu óskir um
Gleðileg jól og farsæld á komandi árum. Jólakveðjur Sigga og Konni
Athugasemdir
Elsku skemmtilega og frábæra frænka mín, til hamingju með bloggið þitt, það færir mig nær ykkur og svo er það líka svo vel skrifað og spilar inn á allar tilfinningar, takk!
Jóna Lisa (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 21:21
Takk fyrir að kvitta frænka mín. Alltaf gaman að fá komment, tala nú ekki um ef þau eru svona flott og jákvæð.
Sigga Guðm. (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.