28.10.2008 | 14:23
Fréttir og ekkifréttir
Er eitthvað löt að blogga þessa dagana, enda nóg annað skemmtilegt með tímann að gera. Við stoppuðum nú ekki lengi í borg föllnu bankanna og satt að segja var ég með einhverja ónotatilfinningu í kroppnum þegar við kíktum í búðir við mæðgur, allsstaðar voru útsölur, upp í 70-80% af verðmiðanum og fengum við á tilfinninguna að nú væru fyrirtækin að reyna að ná í einhverjar krónur áður en þær lokuðu endanlega. Svo fyrir utan það fannst okkur búðirnar eiginlega vera kjaftfullar af engu, hvort það var nú bara stemmingin í okkur eða hvað það var sáum við fátt heillandi og var konni orðinn alveg gáttaður á kaupleti okkar. Fór meira að segja í Blómaval að skoða jólin sem verið var að taka upp og ég keypti ekki svo mikið sem eina kúlu, enda ætla ég að láta það sem til er á heimilinu nægja þetta árið.. Eða það er stefnan...í kreppunni...
Augnlæknirinn dæmdi okkur hjónin með miðaldrafjærsýni og skrifaði upp á resept því til staðfestingar. Ellen Helga kom svo með okkur norður, enda komin í vetrarfrí og naut dagana í firðinum fagra til hins ýtrasta. Var hjá pabba sínum og fjölsk. fyrir utan eina nótt sem þær systur gistu hjá ömmu og afa. Alltaf gaman að fá snúllurnar í heimsókn. Hún flaug svo suður í gær daman.
Er alveg að tapa mér á kreppufréttaflutningnum. Er að láta fréttamenn fara hrikalega í taugarnar á mér og finnst þeir margir engan veginn valda starfi sínu, endalaust gaspur og frammígjammog ótímabærar spurningar. En samt get ég ekki annað en fylgst með hverjum fréttatíma. Fyndnasta frétt vikunnar var nú auðvitað mótmælendurnir sem ekki gátu komið sér saman um stað og stund, nokkuð lýsandi fyrir ástandið í borg föllnu bankanna og alls athyglissjúka fólksins sem nú skríður upp á yfirborðið og ég velti því fyrir mér hvort stutt sé í að menn verði grýttir og bílar brenndir eins og maður sér í fréttamyndum frá útlöndum þar sem skrílslætin taka yfir og fólk hættir að haga sér eins og manneskjur..
Er bara að velta þessu fyrir mér.
Bílalánið er komið í hæstu hæðir svo nú er ég farin að breiða sæng yfir bílinn á kvöldin, þegar ég er búin að keyra honum upp á koddana sem ég er með úti á plani. Maður verður að hugsa vel um dýrgripinn og sýna væntumþykjuna í verki á meðan lánið er svona helv. hátt.
ójá.
Athugasemdir
Bara að kasta kveðju til þín yfir í fagra
Sigga Dalvík (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.