9.4.2008 | 16:03
Leikfélag Ólafsfjarðar!!!!
Í gær var ég á fundi um stefnumótun menninga og lista í Fjallabyggð. Í fyrradag var álíka fundur á Siglufirði og mættu 16 manns, áhugamenn um listir og menningu svo og auðvita listamenn. Þessi fundur var auglýstur með góðum fyrirvara á báðum stöðum og var ætlaður til að heyra hljóðið í fólki sem lætur sig þessi mál varða. 6 mættu á fundinn hér, þar af tveir frá bænum, sem auglýsti fundinn og ég sem sit í menningarnefnd Fjallabyggðar. Svo segja má að einungis þrír hafi mætt vegna einlægs áhuga á einhverju málefni sem þessu tengist. Finnst mér það fremur dapurt í bæjarfélagi sem státar sig af Blues hátíð, Berjadögum, Kór, leikfélagi og hinum ýmsu handverks- og listamönnum.
Ég hefði ekki átt að telja upp leikfélagið. Það er í þungum dvala, svo þungum að aðgerðalaus stjórn þess virðist ekki hafa burði til að auglýsa fund og segja þá af sér, ef einhverjir aðrir hefðu áhuga á að rífa upp starf félagsins. Kannske hefur engin áhuga á því í alvöru. Nógu margir eru þó að ræða dauða félagsins á götum úti og hversu ömurlegt þetta ástand sé. Ég er alveg sammála því, en ég mun ekki nenna að rífa það upp, hins vegar er ungt fólk hér í bæ sem eflaust hefði áhuga á að koma til starfa með félaginu ef það risi upp úr dvalanum, fólk sem hefur ekki haft tækifæri, því félagið hefur legið svo lengi niðri.
Í framhaldi af því minni ég á leiksýningu Leikfélags Siglufjarðar sem verður sýnd í Tjarnarborg um helgina og væri gaman að sjá félaga úr L'O fjölmenna, við gætum jafnvel rætt saman um endurlífgun á okkar félagi í hléi.
Er það ekki??
Athugasemdir
Ég er svo hjartanlega sammála þér um leikfélagið, ég væri sko ekkert á móti því að starfa í því! hvernig væri að við ólafsfirðingar tækjum okkur saman í andlitinu og settum upp eins og eitt leikrit... held að það væru margir til í að koma að því....snilld hjá þér að skella inn bloggi um þetta! kv Villi
Vilhjálmur Þ Davíðsson (IP-tala skráð) 9.4.2008 kl. 20:24
"Öll á kreik, lokið er leik, tinglúdi tanglúdi lústúdí lei,
margt verður skrafað um Skálkana þrjá, það skuluð þið sjá."
Ó þeir geir gömlu góðu dagar Sigga litla, Þrír Skálkar árið 1963, Skálkarnir voru Steini Jóns, Bubbi Óla, Stebbi á Tjörn, Sigga Sæland var Metta dóttir malarans frá Tíbirki, faðir hennar, Jónsi Ásgeirs, Malla gamla Skrepp var Þorfinna frá Miðbæ, Núrí gamla, Petra Rögnvaldar, Ýstru Morten, Geiri Ásgeirs, Nonni Sóleyar var gálgakarlinn og hans aðstoðarmaður var Bjössi Binnu. Þetta eru þeir sem ég man.
Sigga mín, þetta gengur bara upp og niður og þegar botninum er náð þá er leiðin bara upp. Gangi þér vel elskan. Með beztu kveðju.
Bumba, 9.4.2008 kl. 20:59
Mér þykir mjög vænt um Leikfélagið og hverjum manni hollt að starfa með því. Já Villi það er kominn tími á að gera eitthvað í þessu, ég er l´lika viss um að við fengjum nýtt blóð með okkur og gott að vera lifandi þegar göngin opna.
Man eftir að hafa hlustað á upptökur af skálkunum þremur hjá Simma Jóns þegar ég var krakki. Þetta leikrit er sveipað þvílíkum dýrðarljóma hér í firðinum og fúlt að hafa verið 2 ára og misst af þessu. Man eftir að hafa hlustað á upptöku af þessu hjá Simma Jóns í jólaboði þegar ég var krakki. Kveðja
Sigga (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 08:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.