Færsluflokkur: Bloggar
11.6.2008 | 11:06
Veröndin mín.. himnaríki..
Sólin farin að skína aftur eftir nokkra súldardaga og þá kemst ég í gírinn. Um seinustu helgi fékk draum uppfylltan. Við Konni komumst að samkomulagi um að fá okkur heitan pott á veröndina. Ekki að það hafi staðið í okkur hvort.. heldur hvernig... Ég vildi lítinn 2-3 manna einfaldan hitaveituvatnspott, en Konni vildi stærri rafmagnsnuddpott, og hafði Konni betur í slagnum þeim sem staðið hefur nú í eitt og hálft ár eða svo. Svo nú er þessi draumapottur kominn á sinn stað og alltaf tilbúinn þegar heimilisfólkið á Hlíðarveginum vill láta líða úr sér er stokkið útí og nuddið sett á fullt.. og þvílík slökun maður minn og vellíðan sem þessu fylgir. Ég er mjög sátt þó Konni hafi farið sínu fram og keypt nuddpott með góðum tengdapabba- afslætti hjá Herði tengdasyni í Tengi.
Barnabörnin eru þó sýnu ánægðust og fóru Konni litli júníor og Harpa fyrst í baðið og fengust ekki uppúr fyrr en seint og um síðir.
Orri kom til okkar um helgina, stór og myndarlegur drengurinn hafði á orði er hann var að skoða myndir af pabba sínum á hinum ýmsu aldurskeiðum hversu líkir þeir væru, sagðist nú vita hvernig hann muni líta út sem unglingur og ungur maður "pabbi er svo líkur mér að það er ekki fyndið" sagði hann. Amma benti honum á að það væri hann sem væri líkur pabba sínum.. hehe.
Á laugardag var svo farið í garðvinnu á Sandinn hjá tengdaforeldrum, en þar söfnuðust saman slatti af afkomendum þeirra og tóku til hendinni við málningarvinnu, pallasmíði og hrreinsun á blómabeðum og runnum. Ekki allt búið enn og stefnan sett á n.k. laugardag til að klára.
Búið að vera nóg að gera í nöglum undanfarna daga, aðallega tásum þar sem margir eru á leið í sólina í útlandinu og hvað er skemmtilegra en að vera með flottar tásur í sandölunum.
Grilluðum og áttum svo rólegan sunnudag, minnir mig fyrir framan imbann þar sem stanslaus fótboltaveisla fer fram. Mjög skemmtilegt..
Nóg að gera framundan, ætla að mála suðurhliðina á húsinu mínu á næstu dögum, reyna að klára það áður en við Konni förum í okkar langþráða frí. Höldum svo áfram þegar heim kemur og dundum við þetta verkefni í sumar.. Ekkert stress í gangi.
Sjóararnir á sjónum og við hin höfum það gott í sólinni og pottinum.
Nóg að sinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2008 | 09:00
Ræðan
Var búin að lofa einhverjum að setja þetta inn hér ...
Sjómannadagurinn. 2008
Það er sjómannadagur, og pabbi er heima. Hann er alltaf heima á sjómannadaginn. veðrið er fallegt, sól og heiður himin og ég er komin í sparifötin og sportsokka. Þvegin og strokin. Gummi og Þórður bróðir eru heppnir, þeir eru í síðbuxum því Þó að sólin skíni er svöl norðangola sem strýkur bera fótleggi. Skrúðganga með pabba frá bryggjunni að kirkju, í sjómannadagsmessu. Þetta er líka eini dagurinn sem hægt er að fara með honum á bryggjuna, án þess að það þurfi að stoppa og tala við alla karlanna sem verða á vegi okkar til að ræða veðrið, aflabrögð, daginn og veginn. Hann verður að ganga með okkur í skrúðgöngunni. Leiðin niður á sjósand á sunnudögum í gamla daga gat tekið langan tíma með pabba, en þangað fórum við reglulega til að fleyta kerlingar. Eftir hefðbundna messu er drukknaðra sjómanna minnst við minnisvarðann. Þar eru nöfn manna sem lögðu allt í sölurnar til að færa björg í bú, menn sem gerðu sjómennskuna af ævistarfi. Hátíðarbragur er yfir bænum okkar, fánar blakta hvarvetna við hún.
Mamma fer ekki með okkur í messu, hún er heima að elda stórsteik í tilefni dagsins, líklega lambahrygg með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rauðkáli. Eftir matinn er kappróður og síðan hefst dagskrá við sundlaugina, stakkasund, björgunarsund, jafnvel reiptog og fleiri leikir. Þar er barist um Alfreðs- stöngina. Seinna um daginn er fótboltaleikur milli sjómanna og landmanna. Og auðvita held ég með sjómönnunum. Pabbi er að keppa í fótbolta, einhversstaðar í bænum tókst að fá lánaða fótboltaskó nr. 46. Mér finnst pabbi minn bestur. Kaffisala slysavarnardeildar kvenna og dansleikur fyrir fullorðna fólkið eru fastir liðir.
Þegar ég var lítil, var tvennt í lífinu sem ég ætlaði ekki að gera, ég ætlaði aldrei að reykja og ekki giftast sjómanni. Mín börn áttu að hafa sinn pabba heima.. alltaf. Hún var oft löng, biðin eftir að pabbi kæmi í land, og stoppaði þá nokkra daga. Þá voru líka margir sunnudagar í röð, veislumatur, og alltaf reynt að gera eitthvað skemmtilegt, tíminn notaður til hins ítrasta og andrúmsloftið var einhvern vegin öðruvísi. Ekki skemmdi það heldur að maður gat dobblað pabba um eitthvað sem mann langaði í en þorði ekki að spyrja mömmu um. Ég man að einu sinni þegar pabbi var að fá sér kaffi í eldhúsinu áður en hann færi á sjó, skriðum við Gummi með snæri undir borðið og bundum fætur hans fastar við stólinn. Það dugði ekki til, á sjóinn fór hann.Ég giftist sjómanni þegar ég var 18 ára. Ég byrjaði líka að reykja en það er nú önnur saga.
Ég fór nokkrum sinnum með Willa afa á færi, og fannst alltaf gaman fyrst, en iðulega þurfti að fara með mig í land vegna sjóveiki. Ég er einnig svo fræg að hafa farið á Hrefnuveiðar, þegar ég var í tilhugalífinu með konna. Við fórum frá Árskógssandi um miðnætti og var mér sagt að fara í koju svo ég yrði síður sjóveik, sem og ég gerði. Ég vaknaði við það að skipstjórinn, kallaði á okkur að koma upp og halda í sporðinn á Hrefnunni meðan hann skyti hana. Ég þurrkaðist upp úr kojunni, og kallaði á strákana, en þeir hreyfðu sig ekki, vissu sem var að þannig veiðir maður ekki Hrefnu. Ég skammaðist mín svolítið lengi á eftir, að hafa ekki áttað mig strax á hvað þetta var vitlaust.
Það er ekki hægt að tala um sjómenn án þess að minnast á sjómannskonuna. Mér verður oft hugsað til þeirra þegar ég heyri ungar mæður kvarta, að þær hafi svo mikið að gera, hvort amma geti nú ekki tekið krakkana um helgina svo unga parið geti haft það rólegt og næs, eða skroppið eitthvað í tilbreytingu. Þær hefðu líklega þegið sjómannskonurnar, sem voru einar með krakkana og heimilið mánuðum saman, þegar allir voru á vertíðum, og menn komu ekki einu sinni heim á mánaðarfresti eins og togararnir gera þó í dag. Hver kannast ekki við að hafa þurft að falsa nafn eiginmannsins á einhverja pappíra, vera bæði mamma og pabbi, kunna að mála, bora, negla, skipta um kló og nota drullusokk og svo mætti lengi telja. Sjómenn eru sannarlega hetjur, en það eru konur þeirra ekki síður.
Einhverra hluta vegna datt mér sjómannskona í hug þegar ég heyrði þennan brandara
Þrír menn sátu saman og voru að monta sig af því hvernig þeir höfðu látið nýju konurnar sínar fá skyldur og verkefni heima fyrir.
Sá fyrsti hafði gifst konu frá Noregi og hann hafði sagt henni að hún ætti að þvo upp og þrífa húsið. Það tók nokkra daga en á þriðja degi kom hann heim í hreint hús og uppvaskið búið og frágengið.
Annar maðurinn hafði gifst konu frá Danmörku. Hann hafði skipað konu sinni að sjá um öll þrif, uppvask og eldamennsku. Fyrsta daginn hafði ekkert gerst, annan daginn hafði það aðeins skánað og þann þriðja var húsið hreint, uppvaskið búið og svaka steik og meðlæti í matinn.
Þriðji maðurinn hafði gifst konu frá Íslandi. Hann sagði henni að hennar verk væru að halda húsinu hreinu, sjá um uppvaskið, slá garðinn, þvo þvott og elda heita máltíð í hverjum matmálstíma. Hann sagði að fyrsta daginn hefði hann ekki séð neitt, annan daginn sá hann ekki neitt en á þriðja degi minnkaði bólgan aðeins svo hann sá aðeins með vinstra auganu, nóg svo hann gat útbúið sér eitthvað að borða og sett í uppþvottavélina!
Hjónabönd sjómanna einkennast ekki af leiðindum og vana. Hvernig væri það líka hægt þegar menn eru að koma og fara allan ársins hring og nýjabrumið fer aldrei af, það verður aldrei neitt venjulegt. Jól í hverri inniveru og skemmtilegheit. Ekki hægt að fá leið á makanum þar sem hann er sjaldnast heima. Það er alveg klárt að það voru ekki sjómannshjón sem fóru til hjónabandsráðgjafa eftir 20 ára hjónaband. Og þegar ráðgjafinn spurði hvað væri að, hóf konan raust sína og var mikið niðri fyrir. Í góða stund hélt hún áfram og kvaðst vera einmanna, afskipt, í ástlausu sambandi og taldi allar raunir sínar í þau 20 ár sem þau hefðu búið saman.Þegar ráðgjafanum fannst nóg komið stóð hann upp og gekk fram fyrir skifborð sitt, bað konuna að standa upp og kyssti hana innilegum kossi. Karlinn varð ekki þetta litla hissa og konan settist niður eins og í leiðslu.Ráðgjafinn sagði: ,,Þetta er það sem konan þín þarf á að halda. Þetta verðurðu að gera að minnsta kosti þrisvar í viku. Getur þú gert það.Maðurinn svaraði að bragði: ,,Ja, ég get skutlað henni hingað á mánudögum og miðvikudögun, en á föstudögum er ég upptekinn við að veiða.
Þó margt hafi breyst í gegnum árin í bænum okkar, félög og klúbbar lagt upp laupana eða lagst í dvala, getum verið mjög stolt af því, að hér í Ólafsfirði hefur sjómannadagurinn haldið sjarma sínum og hátíðleik í gegnum árin. Hann er enn með sama hefðbundna sniðinu og þegar ég var að alast upp, en er orðin mun veglegri og meira í hann lagt en áður, þökk sé áhugasömum og duglegum sjómönnum. Þeir eru flestir hverjir þátttakendur á einn eða annan hátt, og leggja nótt við dag í að undirbúa helgina, sem nú er orðin sannkölluð fjölskylduskemmtun, þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Í nágrannasveitarfélögum okkar eru hátíðarhöld nánast að leggjast af vegna þess að enginn fæst til að gera það sem gera þarf.
Sjómannadagurinn gegnir margvíslegu hlutverki í samfélaginu og á sér varla hliðstæðu í nokkru öðru þjóðfélagi. Því megum við aldrei gleyma að þjóðfélag okkar sem nú á allra síðustu árum hefur tekið miklum breytingum, var byggt upp á einni atvinnugrein sjávarútveginum, enda eru sjómenn og úterðamenn stoltir af starfi sínu, og mega svo sannarlega vera það. Í öllu tali um stóriðjur, banka og hátækniðnað, skulum við aldrei gleyma því.
(Árið 1939 efndi sjómannadagsráð til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadaginn. Magnús Stefánsson hlaut 1 verðlaun fyrir ljóð sitt Hrafnistumenn, við lag eftir Emil Thoroddsen. Þetta ljóð og lag er nú einkennissöngur sjómannadagsins.
Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn
þó að töf yrði á framsóknarleið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr
eftir seglskipið vélknúin skeið.
En þótt tækjum sé breytt
þá er eðlið samt eitt
eins og ætlunarverkið er sjómannsins beið. )Og af því að Ægir vinur minn og félagar á Sibbunni eru svo sjúkir í að vera í útlöndum og fara á hverjum vetri til Noregs, að kaupa jólaskraut
allavega Ægir, Þá verð ég að segja ykkur frá Íslendingnum og Norðmanninum sem voru á kaffihúsi á íslandi
Íslendingurinn var að borða brauð með ávaxtasultu og Normaðurinn var með tyggjó. Normaðurinn gengur að Íslendinginum og spurði: "Borðar þú skorpurnar á brauðinu"?
-Íslendingurinn: "Já auðvitað. Af hverju spyrðu að þessu".
-Normaðurinn: "Ekki við í Noregi. Við sendum þær í endurvinnslu og búum til brauð úr þeim og sendum til Íslands". Eftir dálitla stund kom Normaðurinn aftur og spurði: "Hvað gerir þú við híðið af ávöxtunum þegar þú borðar ávöxt".
-Íslendingurinn: "Auðvitað hendum við því í ruslið".
-Normaðurinn: "Ekki við. Við sendum það í endurvinnslu og búum til ávaxtasultu úr því og sendum hana til Íslands". Nú var Íslendingnum nóg boðið og sagði: "Hvað gerir þú við smokkana þegar þú ert búinn að nota þá"? Normaðurinn:"Auðvitað hendum við þeim í ruslið".-Íslendingurinn: "Ekki við. Við sendum þá í endurvinnslu og búum til tyggjó úr þeim og sendum til Noregs".
Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2008 | 09:43
Sjómannadagurinn liðinn
Hún á afmæli í dag hún Gulla lyftingarfélagi, vinkona mín og frænka .....
Til hamingju elsku kerlan mín. Þú lítur ekki út fyrir að vera degi eldri en 49 ára ... múhahaha .. djók... þú ert flottust...
Sjómannadagshelgin að baki. Fórum á Húsavík á laugardag. Þar var mjög gaman, Ljótu hálvitarnir voru veislustjórar og sáu um skemmtun.. Þeir voru ágætir. Maturinn var líka ágætur og ég meira að segja dansaði smá áður en við fórum heim sem var um 3 leytið um nóttina. Vala tengdadóttir okkar átti afmæli, var 25 ára á laugardaginn svo við létum nú vita af því svo að það var sungið fyrir hana.
Sváfum bara út á sunnudaginn, við slepptum messunni, enda erum við orðin svo slöpp við Konni að við urðum að hvíla okkur fyrir ballið á sunnudag, erum ekki mjög mikið úti á lífinu og mjög sjaldan svona kvöld eftir kvöld.
Freyja, Hörður og Lena fóru með okkur og var alveg rosa skemmtilegt. Maturinn var æðislegur. Frábær skemmtiatriði og ræðan alveg rosalega flott.. svo ég tali nú ekki um ræðumanninn sem mér fannst fallegastur af öllum.. ójá ég er svo ferlega frábær.. múhahahaha...
Helga Braga veislustjóri, Björgvin Frans, Sigga Beinteins og Bryndís Ásmunds.. Tina Turner, Geir Ólafs, Eyvör Páls, Jónsi í Svörtum, Garðar Cortes Mugison... Takk fyrir mig .. á ekki orð til að lýsa hversu gaman var að hlusta á alla þessu frábæru skemmtikrafta.. Takk sjómannadasráð (Hlynur og Ingimar) fyrir ógleymalega skemmtun..
Ekki skemmdi að vera með stelpunum sínum sem voru svo sætar og fínar og skemmtilegar eins og mamma sín.. við vorum auðvita allar í sérhönnuðum dressum og saumuðum af Freyju okkar snillingi. Mitt dress var að vísu saumað í fyrra, en ekki verra fyrir það. Við Konni fórum svo heim um hálf tvö, södd og sæl. klukkutíma seinna kom svo restin heim, uppfull af slagsmála- og leiðindafréttum af ballinu..
Mikið var ég fegin að vera komin heim og þurfa ekki að horfa upp á neitt ljótt eða leiðinlegt.. Bara þakklát fyrir að vera edrú og vita hvað ég segi og geri. Svona sögur af böllum minna mig á af hverju ég hætti að drekka og gera mig staðfastari í edrúmennskunni..13 ár síðan ég setti tappan flöskuna og ég velti því fyrir mér.. hvernig væri drykkja mín í dag ef ég væri enn að ???????? ó mæ god. Orðin þrettán árum þreyttari og eldri.. ojojojoj.
Ekki má gleyma að minnast á kaffiboðið hjá Arnari og Þórgunni á sjómannadag, orðin fastur og góður liður í tilverunni. Æðislegt. Veðrið var bara snilld. Sól og hiti.
Síðasta kóræfingin var í gærkvöldi, í kvöld miðvikudag erum við svo með tónleika í Siglufjarðarkirkju .. og hér heima í kirkjunni okkar annað kvöld. Ég hlakka til að fara á Sigló í dag í góða veðrinu, vona bara að það komi einhverjir á tónleikana.. Veit að Ólafsfirðinar fjölmenna í kirkjuna til okkar á morgun.. Bara skemmtilegt.
Nóg í bili.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2008 | 09:12
Perla á heimleið
Haldiði ekki að hún Perla litla, elsku hundurinn hennar Lenu sé ekki að koma heim úr sumarfríinu. Það varð heldur styttra en ég reiknaði með, Lóa reyndist vera með ofnæmi svo Ellen verður bara að vera hjá okkur í sumar og leika við hundinn. Lena er auðvita í hæstu hæðum af gleði, en mínar tilfinningar eru mjöög blendnar. En viðurkenni fúslega að ég hlakka til að sjá gerpið..sem kemur á föstudagskvöld.
Tónleikar á Hornbrekku í kvöld, held að þetta sé dulbúin æfing hjá Ave að láta okkur syngja fyrir gamla fólkið og vissulega veitir okkur flestum ekki af æfingum,svo það er bara gott mál.
Sjómannadagsball á Húsavík á laugardag og hér í firðinum á sunnudag. Ég ætla að flytja ræðu dagsins í Tjarnarborg, það er annað hvort ég eða Sverrir Mansa, en hann gerðist rollubóndi í óbyggðum svo notast verður við mig þetta árið. Það er nú svo með okkur alkana.. sko mig og Sverrri að líklega erum við svo áreiðanleg.. alkarnir klikka ekki ef þeir taka eitthvað að sér, og lítil hætta á að maður verði orðin of fullur til að skanadalísera... eða þannig. Nei við erum bara svo skemmtileg ... það er örugglega það.
Grillaði í fyrsta sinn þetta árið, en Konni minn þessi elska kom heim í helgarfrí og við drösluðum grillinu á sinn stað.. mjög gott. Hann er svo farinn í veiði með stöngina maðurinn.. skil þetta ekki... nýkominn af sjónum og farinn aftur í veiði.. skil ekki þessa dellu en það er líka allt í lagi.. örugglega skemmtilegra að standa við fallega á, heldur en að slá lóðina.. t.d...
Álfasalan á fullu og gengur ágætlega hjá þeim Völu og Lenu í sölunni.
Gott í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2008 | 08:31
Suðrænt veðurfar
Er alveg viss um að ég hef verið suður- efvrópubúi í fyrra lífi. Líður svo vel þegar sólin skín og hitin fer upp fyrir 10 gráður. Þessa dagana er veðrið að leika við okkur og nýt ég þess í botn
Setti inn nokkrar myndir úr skemmtilegu afmæli sem ég var í á föstudaginn um hádegi hjá Snjólaugu vinkonu minni.. Alltaf jafn gaman að koma til jógakerlunar.. Bauð okkur upp á mexíkanska súpu og meðlæti .. nammi namm.
Fattaði allt of seint að myndavélin var í töskunni, margar kerlur farnar til vinnu en við sem eftir urðum skemmtum okkur og dönsuðum villta indjánadansa við flaututónlist.. Bara gaman.
Heimsóttum Freyju á sunnudag, skelltum okkur í sólbað og Konni litli júníor var settur í sund í plastkassa og þar sat hann örugglega í klukkutíma með eina plastskál og dundaði við að sulla í vatninu. Ég hef verið að heimta pott á terrasinn hjá mér en hugsa nú alvarlega um að kaupa plastkassa í staðinn.. einn á mann.
Álfarnir komnir á staðinn og ætla Lena og Vala að sjá um að selja þá fyrir mig, mikið glöð yfir því, svo elskurnar mínar.. upp með veskin
Sól í sinni..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2008 | 11:11
Áfram ísland og MAn-Utd. bestir
Mikið var ég glöð í gærkvöldi þegar ljóst var að Eurobandið fengi að stíga á stokk á laugardag líka. Flott frammistaða þeirra skötuhjúa Regínu og Friðriks. Hef verið að skoða vefmiðla, enginn er að velta sér uppúr klæðnaði þeirra þetta árið. Bleik og svört.. mjög smart, og Frikki berhandleggjaður, tanaður, tannhvíttaður og vöðvastæltur. líklega búið að vera nóg að gera hjá honum að hrista af sér GAY-liðið í Serbíu. Fannst fyndið að lesa viðtal við kærasta hans sem þurft hefur að vera í felum, enda vænlegra að okkar maður sé á lausu.. TIL HAMINGJU ÍSLAND... ÁFRAM ÍSLAND Á MORGUN....
Annars sól í heiði og sinni. Komin á fullt í garðinum og Konni minn á fullt með veiðistöngina ef hann skreppur heim. Þau tóku helgarfrí á sjónum á miðvikudag og fimmtudag svo við áttum saman júróvisionkvöld í gær ásamt Sigga-fjölskyldu. voða gaman. Konni litli júníor er á fullu út um allan garð, alltaf að uppgötva eitthvað spennandi og sulla í mold og vatni. Mamma hans er farin að setja hann í "vinnugalla" áður en hann heimsækir ömmu og afa.
Veðurspáin lofar góðu fyrir helgina, sólböð, málnigarvinna og eitthvað skemmtilegt í bland. Kaffi á Terrasinum með tyggjói.. Veit ekki hvernig ég fíla að fá ekki kaffi og sígó úti í sumar, en það hefur verið uppáhaldið mitt.. Sitja úti - drekka kaffi - Reykja -- og spá í landsins gagn og nauðsynjar.. við Gulla æfingarfélagi minn höfum verið duglegar í hreyfingunni og ég hef ekki verið að bæta miklu mataræði utan á mig ennþá.. er mjög þakklát fyrir það. Kannske vegna þess að það er svo mikið að gera, engin tími til að liggja í ísskápnum. Framundan eru stífar kóræfingar, messa, jarðaför, tónleikar í Hornbrekku, Siglufirði, Ólafsfirði, Álfasala S'A'A, (Þetta árið verð ég nú að fá aðstoð, hef hreinlega ekki tíma til að ganga ein í öll húsin í firðinum sjómamannadagshelgina.) en allt hefst þetta á endanum, en ég hlakka mikið til 5. júní, þegar kórinn er komin í sumarfrí..
Ójá..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2008 | 11:31
Perla í sumarbúðir
Annasöm helgi að baki. Mikið skemmtilegt afmælið hjá Dóra frænda, góður matur skemmtiatriði og félagsskapur. við hjónin fengum okkur smá snúning áður en við fórum heim. kóræfingar helgarinnar gengu snuðrulaust fyrir sig og ég lærði alveg helling.
Á laugardag var svo veislan henna Annettu og hún var ekki síður skemmtileg. Góðar veitingar og mikið konfekt sem mér þótti æðislegt. Kórfélagar sungu 3 lög fyrir afmælisbarnið, meira að segja eitt á þýsku sem við vorum búina að æfa í laumi. Annetta var mjög hrifin og sagði framburðinn vera alveg eins og í heimahéraði hennar... hún er nú svo kurteis stelpan.
Um helgina var tekin sú ákvörðun að senda Perlu í sumarbúðir til Ellenar Helgu í höfuðstaðinn, en hana hefur lengi langað í hund og amma Sigga hefur viljað losna undan hundapössuninni svo þetta rímaði nokkuð vel saman. Það þurfti auðvita að sannfæra Lenu um að þetta væri bara tímabundið, þar til hún hefði meiri tíma sjálf, en hún er svo dugleg á sjónum og ætlar að róa í sumar, en stefnir á skóla í haust, svo hún hefur lítinn tíma í að vera hundamamma.
Perla var send í flugi suður í gær, og ég verð að viðurkenna að það var ekkert auðvelt að sjá á eftir henni vælandi í búrinu... Gáfum henni sjóveikispillu að dýralæknisráði, svo hún yrði rólegri og vissulega hefur það haft einhver áhrif. Ellen og Lóa tóku svo á móti dömunni í R-vík og var hún að braggast í morgun þegar ég heyrði í þeim. Harpa var mjjjööög sorgmædd þegar við yfirgáfum flugvöllinn í gær, og er farin að hlakka til þegar Ellen og Perla koma í heimsókn í sumar...
Kíkti aðeins í garðinn á sunnudag, og hreinsaði smá.. vantar bara aðeins meiri hita og sól til að ég gleymi mér í garðinum.. og tíma já, það er víst ekki mikið af honum aflögu þessa dagana.. konni og Lena á sjó.. og ég get gert það sem ég vil, þarf ekki að fara heim og hleypa hundinum út, eða labba með hann, ekkert að knúsast með hann á næstunni, enda ætla ég í ræktina í hádeginu, það hef ég ekki gert síðan í nóv. að Perla kom til okkar.
Gott að sinni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2008 | 15:28
Afmælis og kórahelgi
Ég er alveg hætt að botna i hversu tíminn líður hratt. Komin helgi enn einu sinni. Afmæli hjá Halldóri Guðmunds frænda mínum í kvöld, en sá heiðursmaður er 75 ára. Blásið til veislu í Tjarnarborg og hlakka ég mikið til að eiga skemmtilega stund með ættingjum hans og vinum. Kóræfingar hefjast svo 9 í fyrramálið,svo ég reikna með að mæta bara á náttserknum, Það er náttúrulega bara óGuðlegt að byrja svona snemma á laugardegi.
Annetta kór - vinnufélagi og systir okkar Guðnýjar heldur svo upp á fertugsafmælið sitt með pomp og prakt á laugardagskvöldið og þar ætla ég auðvita að mæta með kórnum og vinnufélögum mínum, eta, drekka og vera glöð þar til kóræfingar hefjast aftur á sunnudagsmorgun. Við erum að æfa fyrir tónleika sem verða í byrjun júní og okkur veitir víst ekki af svona æfingahelgi, svo innst inni er ég bara fegin að veðurspáin er ekki betri en raun ber vitni, yrði vitlaus að hanga inni annars.
Konni litli júníor er enn lasinn, og afi hans kom heim í gær og ákvað að klára að liggja í rúminu og ná skítnum úr sér, hann er mjög erfiður sjúklingur karlinn. Lena kom í land í morgun af Þórsnesinu, stóð sig með snilld í kokkaríinu stelpan, og hældi áhöfnin henni á hvert reipi. (Já Freyja og Lena spurjið mig bara hvaða reipi ég sé að tala um).
Vera glöð í sinni, líta á björtu hliðarnar ... hafa gaman af því sem maður er að gera...Það er málið. Mánuður í sólina..
Góða helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2008 | 13:33
Skrúfjárn á Hvítasunnu
Hvítasunnuhelgin leið í rólegheitum og sjóararnir mínir farnir aftur. Konni minn lagðist í flensu á sunnudagsmorgun, eftir að við Lena höfðum dobblað hann með okkur í sund. Lágum í heita pottinum þegar minn maður stóð allt í einum upp og sagðist vera farinn. Við komum honum heim í rúm og þar lá hann þar til í morgun að hann skellti sér í vinnugallann og sagðist vera farinn!!! í vinnuna.
Lena fór í gær sem kokkur á Þórsnesið, held að það séu 9 karlar þar um borð. Pabbi hennar "lánaði" hana í tvo daga, svo ég er með gemsann við hendina ef hún þarf aðstoð en hún hefur ekki hringt enn. Veit að hún græjar matinn með stæl ofan í þá.
Ég eignaðist mitt fyrsta skrúfjárn á föstudaginn. Það er svona svart og rautt með haldi úr mjúku gúmmíi með gripi fyrir fingurna. Hef bara aldrei séð svona fallegt skrúfjárn áður. það er í tösku með fullt af litlum skrúfbitum, svo ég get skrúfað allar gerðir af skrúfum. stjörnu- kubba- rifu- skrúfur. það fer bæði afturábak og áfram.. Engin smá græja.
Málið er að í s.l. viku þurfti ég að losa skrúfu í naglaherberginu og fann ekkert passlegt skrúfjárn. skrúfan var ferköntuð, en ekkert svoleiðis járn fann ég. Ég bölvaði manni mínum í sand og ösku fyrir að hafa notað svona skrúfu en ekki hinsegin og þegar hann kom svo í land fékk hann að heyra það óþvegið, að allt væri í óreglu í skrúfu og skrúfjárnadeild heimilisins.. Skemmst frá því að segja að hann færði mér svo þessa skrúfjárnagjöf um kvöldið, mér til mikillar ánægju... Og við sættumst heilum sáttum við hjónin, hélt ég ..og bað Konna að fara niður í naglaherbergi og laga það sem þurfti, en hann sagðist ekki eiga neitt passlegt skrúfjárn, en hinsvegar ætti ég það og skyldi nú bara laga þetta sjálf... Sem og ég gerði .. á meðan hann horfði á og leiddist ekkert.. Múhahaha..
Byrjaði svo hreinsunarstarf í garðinum í gær, enda af nógu að taka ... Bara gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2008 | 15:24
Allt rólegt...
Allt í rólegheitum í firðinum þessa dagana. Bandýmótið var alveg frábært, mikið stuð og gasalega flottir búningar. Alveg ótrúlegt hvað fólk verður frjótt í hugsun þegar kemur að bandybúningunum.
Annars er ég voða tóm þessa dagana, allir á sjó, og ég á æfingum, gönguferðum með hundinn og með Gullu í ræktinni. Það er alltaf nóg að gera.
Fékk skemmtilegt símtal á mánudag frá Simma frænda mínum í danaveldi. Hann upplýsti mig um að hann væri kominn með gráa firðringinn og hefði því keypt hund handa frúnni sinni og mótorhjól fyrir sig. Gott ef allir karlar tækju svona á þessum blessuðum fiðring, fengju sér hestöfl í klofið en slepptu því að yngja upp eiginkonuna eða fá sér viðhald... ójá..
Hófý mágkona missti mömmu sína á mánudag, og ætlum við Arnar fara suður í næstu viku með móður okkar til að vera við útförina.
Ég ætla ekki að segja Konna frá Simma og hjólinu, því minn maður ætlar að fá sér reiðhjól í þegar hann kemur heim og ætla ég ekki að koma neinum mótorhjólagrillum í hausinn á honum..
Þannig er það nú.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)