Jæja..jæja..

Ég varð bara að klippa þennan ræðubút og setja hér á bloggið mitt.. Svo halda sumir að það sé leiðinlegt í vinnunni hjá mér... það er öðru nær, þetta brot af umræðum i þinginu frá því í jan. 1973  segir meira en mörg orð, um hvað  maður rekst oft á skemmtilegar umræður og orðheppna þingmenn. Þeir eru auðvita jafn misjafinir og við hin. En ... jæja .. þýðir ekki bara jæja... heldur jæææja..

(Stefán Jónsson Þingmaður .)

Ég man eftir lítils háttar úttekt á smáorðinu jæja, upphrópuninni jæja, sem gerð var í félagahóp nokkurra rithöfunda fyrir allmörgum árum! Sjálfur man ég eftir fyrsta áhrifaríka jæjinu, þegar ég var fyrir innan fermingu, í fyrsta sinn verkamaður og tók þátt í verkfalli suður í Álftafirði, þegar verið var að byggja hlöðu hjá Birni í Múla. Það hafði nýlega verið stofnað verkalýðsfélag á Djúpavogi, og samkv. samningum áttum við að hafa klukkutíma í hádegismat. Þegar við vorum búnir að borða, eftir 10 mínútur, og höfðum setið í 5 mínútur, stóð Björn í Múla upp og sagði: jæja. Við stóðum allir á fætur og fórum að vinna. Þetta skeði annan daginn. Þegar við höfðum borðað og setið í 5 mínútur, stóð Björn í Múla upp og sagði: jæja. Og við stóðum á fætur og fórum að vinna. En þá tóku forustumenn sem eldri voru og vanari í verkalýðsmálum, sig til og ákváðu, að næsta dag skyldum við sitja kyrrir, þótt hann segði jæja. Björn í Múla lék sama leikinn. Hann reis á fætur og sagði: jæja, en við sátum kyrrir, og hann horfði á okkur og beið svolitla stund. Svo settist hann hjá okkur, og eftir nokkur andartök reis hann enn á fætur og sagði: jæja, en við sátum kyrrir. Þetta var svokallað verkfallsjæja.Af því að ég er að reyna að lýsa þessum blæmun í upphrópun og dýpt hans, hér í sölum Alþingis, þá ætla ég að segja ykkur frá pólitísku jæja, sem Jörundur Brynjólfsson frændi minn, útskýrði fyrir mér, þegar ég hitti hann eftir að hafa ákveðið að fara í framboð norður í landi, og hann sagði: „Þú ert að fara í framboð, Stefán minn.“ „Já“ sagði ég, „og nú þyrfti ég kannske á þínum ráðum að halda, af því að þetta hef ég ekki gert áður. Hvernig á maður að fara á bæjargang í pólitísku framboði og banka þar upp á?“ Hann sagði: „Þú ert nú vanur að fara á bæjargang, þú hefur gert það í 25 ár.“ Og þá sagði ég: „Það var allt annað mál, þá var það í ærlegum tilgangi, ekki til þess að biðja um atkv.“ Hann sagði: „Ég get aðeins gefið þér eitt ráð. Þegar þú bankar og bóndinn kemur til dyra og þið hafið heilsast og eruð búnir að tala um veðrið og sauðburðinn, sem mun nú standa hæst, þegar þetta skellur yfir, þá mátt þú ekki segja jæja.“ „Af hverju?" spurði ég. „Sá ykkar, sem segir fyrr jæja, hann tapar,“ sagði hann.Ég man eftir hættulega jæja líka, úr því að ég er byrjaður að tala um þetta smáorð. Það skeði úti í Kaupmannahöfn og blandast í þetta þrír Skúlar: Skúli Skúlason, Skúli Þórðarson, sem kallað var kollega, og Skúli Brynjólfsson, sem var bátsmaður á Stelln Polaris í siglingum á milli Kaupmannahafnar og Newcastle. Það skeði um líkt leyti, að Skúli Brynjólfsson kom til Kaupmannahafnar, þar sem hann var vanur að eyða landvistarleyfum sínum í að berja Dani, og Skúli Skúlason kom til Kaupmannahafnar í fyrsta sinn, ekki mjög vel að sér í dönsku. Hann var handtekinn á knæpu þeirri, sem nú heitir Kakadúbar, fyrir að hafa barið niður lífvörð hans hátignar og tekið af honum húfuna, --- þið kannist við þessar háu húfur þeirra loðnu, --- tekið af honum húfuna og selt upp í hana. Vitaskuld var það Skúli Brynjólfsson, sem barði manninn.

Skúli Skúlason var handtekinn fyrir þennan verknað. Þegar þetta hafði verið lesið fyrir honum, þá sagði hann ekkert annað en jæja. Honum var stungið inn, og um morguninn var hann ekki látinn laus, heldur var honum sagt, að hann hefði játað á sig verknaðinn kvöldið áður. Og í prótokoll stóð, að hann hefði sagt: ja, ja. Skúli kollega var fenginn til að leiðrétta misskilninginn og útskýra merkingu „jæja“ á dönsku.

Þar hafið þið það...

Fór á Akureyri í gær, með vögguna svo það væri nú klárt.. Harpa var mjög ánægð að fá hana í hús.. og vildi leggja sig strax.. Hitti líka dætur mínar 2. Borðaði með þeim og við hlógum og skemmtum okkur saman, það er nefnilega ekki á hverjum degi sem við hlægjum að vitleysu úr Freyju.. Hún gerir yfirleitt ekki mikið af vitleysum.  Hún hélt semsagt að  Júlíana Ingva og Inga sæland væru systur og hefur spunnist mikil della í kringum það í hausnum á Freyju.. Já stundum gæti maður haldið að Freyja væri dóttir mömmu sinnar...

Ójá


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband