Útidyrahurðin góða

Nú er úti veður vont. Þannig er það í dag í firðinum fagra og akkúrat ekkert fallegt við rokið og kuldan sem smýgur í gegn um merg og bein. Gott að vera inni og helst undir teppi með prjóna eða góða mynd í tækinu.

Freyja mín var að opna myspace síðu á dögunum og er hún ekkert smá flott. Svo ég tali nú ekki um fötin sem hún er að hanna og sauma og má sjá á síðunni. Auðvita er mamma búin að setja link á hana hér til vinstri, svo allir geti séð hvað hún er mikill snillingur stelpan. Verst að maður þarf sjálfur að vera með svona síðu til að geta kommentað og skoðað almlennilega.Kissing

Þau undur gerðust á laugardag, að á meðan ég var lokuð inni í naglaherberginu svokallaða að Konni minn skaust til Akureyrar og keypti nýtt handfang á útidyrahurðina og ekki nóg með það, heldur setti hann það á og nú getur fólk komist inn og út hjálparlaust hjá okkur, þó það hafi enga æfingu né próf á hurðina. Þetta hefur verið gestaþraut heimilisins að lofa fólki að reyna að komast inn og út, margir hafa reynt en mjög fáir hafa uppskorið opna hurð. Vinnufélagar mínir skildu t.d ekkert í því af hverju ég læsti aldrei húsinu, fyrr en þeir reyndu sjálfir að komast út eða inn hjálparlaust. Þá uppgötvuðu þau að það væri óþarfi að læsa. Þarna inn fer enginn nema með áralanga þjálfun á húninn. Enginn þjófur hefði haft þolinmæði til að reyna við innbrot hjá okkur.

Gallinn er að vísu sá að gamla flotta hurðardótið skildi eftir sig ljót för og göt á hurðinni sem ég mun fylla með tréfyllu með tíð og tíma og mála svo. Hurðarflekinn sjálfur er nú líka orðinn ansi lélegur, hann mátti illa við því um árið þegar eiginmaðurinn missti háþrýstidælu á hana og fannst svo gaman að sjá viðinn holast að hann gat ekki hætt. Ég þurfti að kasta mér á manninn til að ná dælunni af honum og benda á að þetta væri viður, ekki steypa, en tilgangurinn með dælunni var að losa gamla málningu af húsinu. Svei mér ef hann verður ekki enn skömmustulegur þegar hann gengur inn um hina margumtöluðu hurð. Hún mun samt fá að standa eitthvað áfram og minna hann á óknyttina.

Á konudaginn í fyrra gaf hann mér þakrennur mér til mikillar ánægju, spurning hvort hurðarhandfang sé konugjöfin í ár.Wink

Kemur í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég er mest hrædd um að maður muni sakna alls vesensins við að komast út frá þér

Þórgunnur (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 17:39

2 identicon

Segggggðu.. ég efast um að ég venjist átakalausu opnuninni nokkurn tímann..hehe

Sigga Guðm (IP-tala skráð) 13.2.2008 kl. 08:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband