Færsluflokkur: Bloggar
24.6.2009 | 08:13
Vöknuð!!
Er mjög stolt af því að hafa munað aðgangsorðið inn á bloggið mitt þar sem ég hef ekki skrifað færslu síðan 17. apríl. Virðist ekki getað verið bæði á fésinu og hér en ætla að reyna að bæta mig fyrir sjálfa mig því ég hef notað bloggið til að rifja upp liðna atburði, þar sem ég er svo gleymin er gott að hafa þessa " dagbók".
Annars allt gott af okkur að segja, sumarið komið norður og við hjónakorn á leið í sumarfrí, Konni að vísu viku á undan mér, en það er nú með ráðum gert hjá mér svo hann verði búinn að gera allt það leiðinlega í garðinum þegar mitt frí hefst.. Annars er svo sem ekkert leiðinlegt um að vera í garðinum okkar, bara stuð.
Ættarmót ósbrekkuættar um helgina og nóg að gera í undirbúningi hjá okkur í nefndinni, t.d. hittingur hjá okkur á Ak. í dag, hlakka til að sjá ættingjana og eyða með þeim helginni.
Ólétturnar mínar Freyja og Lena eru hressar og kátar, og fullar tilhlökkunar að verða mömmur. Þær ætla báðar að mæta á ættarmótið og Sig. Óli auðvita líka og barnabörnin svo það verður bara fjör.
Gott í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 15:57
Frábært Brynjar Leo!!
Æsispennandi og Brynjar Leó vann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2009 | 09:47
Barbie er steindauð..
Helgin framundan og konukvöld leifturs á hótelinu annað kvöld. Er þegar orðin spennt og hlakka til að eiga skemmtilegt kvöld með kynsystrum mínum. Hatta eða eitthvað höfuðskraut er þema kvöldsins og verður maður ekki í vandræðum með að skella skýlu á hausinn.
Verð að rifja upp konukvöldið um árið þegar jónína Ben var fengin til að koma með fyrirlesturinn um að barbie væri dauð. Það hefði bara verið frábært í alla staði það kvöld ef aðalfyrirlesarinn hefði mætt og skemmt okkur... en nei... sú ágæta kona ruglaðist á helgum og þegar við loksins náðum á henni í síma lá hún fyrir framan sjónvarpið heima hjá sér í henni Reykjavík.
Við Jónína frænka vorum í vægu taugaáfalli allt kvöldið, þar sem við þurftum að halda uppi fjöri í 3 klst. ásamt fleirum sem voru með okkur, það voru allir brandarar sagðir a.m.k. tvisvar og farið í hangikjötslæri og Jón í kassaverksmiðjunni og eflaust fleiri hreyfileiki sem við kunnum. En aðallega vorum við að hvetja konurnar að fara á barinn, sem þær gerðu þessar elskur og skemmst frá því að segja að allt áfengið á barnum kláraðist og karlarnir okkar fengu sjokk þegar þeim var hleypt inn í húsið um miðnætti.. Annað eins konufyllerí hefur aldrei sést fyrr né síðar í Tjarnarborg. Þurftum að hringja í alla sem okkur datt í hug að ættu flöskur heima í skáp og keyra svo um bæinn og safna áfengi til að selja á ballinu.. Þetta var alveg ótrúlegt kvöld.. og salan á barnum var met.. Ekkert karlakvöld, hefur enn toppað þetta stuð hjá kerlunum.
Jónína Ben mætti svo viku seinna og hélt þennan bráðskemmtilega fyrirlestur yfir okkur, svo konurnar fengu bara aukakvöld, en þá var bara kaffi og léttmeti á boðstólnum.
Ég vona að mafíufrænkan hún Anna Hilda sem ætlar að vera veislustjóri og skemmta okkur annað kvöld, sé alveg með það á hreinu að þetta er núna um helgina og reyndar efast ég ekkert um það, hún klikkar ekki frekar en hún á kyn til.
Svo kæru konur.. allar á konukvöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 09:58
Páskar á enda
Páskahátíð um garð gengin. Ellen og orri voru hjá okkur, konni og Harpa komu svo í 2 daga og skelltum við okkur í keilu ásamt Freyju, Herði, Lenu Hafþóri og Þórði bróður og hans stórfjölskyldu. Skemmtum við okkur konunglega.
Fór í messu á föstudaginn langa og las einnig nokkra passíusálma um morguninn. Dreif mig líka í sönginn á páskadagsmorgunn og þurftum við kórfélagar að mæta kl 8 um morguninn til kirkju, en Munda prestur er búin að færa messuna frá kl 8, til kl. 9 og er það mesti munur, bæði fyrir kór og kirkjugesti. Síðan var drukkið kaffi og páskaegg mauluð með í safnaðarheimilinu á eftir.
Borðuðum svo saman systkynafjölskyldurnar á páskadag hjá Arnari.. skemmtilegt.
Er ekki að nenna að blogga, en ætla að dröslast hér inn með reglulegu millibili ef eitthvað skemmtilega fréttnæmt er í gangi.
Gott
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2009 | 08:49
Konni Þór gullmoli
Litli hjartaknúsarinn
Konni Þór júníor á afmæli í dag
tveggja ára drengurin og algjör gullmoli
Til hamingju elsku snáðinn okkar
Amælisveislan verður svo á laugardaginn, svo allir geti mætt og átt glaðan dag með afmælisbarninu.
Aðalfundur slysavarnadeildarinnar er í kvöld, leikhús hjá okkur hjónakornum á morgun, ætlum að hlægja svolítið og sjá Fúlar á móti, býst við að það verði hrikalega skemmtilegt. Snjórinn fellur hratt úr garðinum hjá mér og greinilegt að vorið er ekki langt undan þótt páskahretið og hvítasunnuhvellurinn eiga örugglega eftir að láta á sér kræla. En það er í góðu lagi.
Ég er svo mikil sumar og hitamanneskja að um leið og fer að hlýna fer ég að pikka í snjóinn svo ég komist sem fyrst ofan í jörð til að huga að garðinum og er einatt of fljót á mér að hreinsa garðinn, get bara ekki hamið mig. Það er nú bara mars ennþá.
Ætla að eiga góðan dag og brosa mikið...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 13:47
Framhaldskólinn verður að veruleika..Ekki spurning:)
Er bara orðin handónýtur bloggari síðan ég asnaðist á facebook. Varð að setja inn nokkrar línur í dag vegna þess að þetta er svo merkilegur dagur.
Menntamálaráðherra heiðraði Ólafsfirðinga með heimsókn sinni í hádeginu og skrifaði undir samning vegna framhaldskólans sem verður staðsettur hér í firðinum. Mál til komið að fá þessa undirskrift, og þó við hefðum þurft að bíða Katrínar í hálftíma þá var það nú minnsta málið. Krakkarnir í 10. bekk á Siglufirði og í Ólafsfirði voru mætt og var gaman að því.
Fórum austur á Nes. til Lenu og Hafþórs á mánudaginn s.l. Það var skemmtilegt og komin tími til að heimsækja þau. Fór með Lenu í skólann og var módel hjá henni, sem gekk mjög vel. Hittum foreldra Hafþórs sem var líka komin tími til þar sem við ætlum að eiga saman barnabarn í ágúst. Já ég hef víst ekki bloggað um þær gleðifréttir dætra minna í nóvember, þegar þær tilkynntu okkur um að báðar ættu von á barni, og ekki nóg með það heldur nánast sama daginn skráðar dömurnar. Samkvæmt tímatalinu munum við líklega eyða fimmtugsafmælisdeginum Konna míns hlaupandi milli fæðingarstofa á Akureyri.. Múhahaha.
Lena kom svo með okkur norður í helgarheimsókn en tók rútuna austur í gær, Ellen kom líka í heimsókn en Orri komst ekki þar sem hann var að keppa í handbolta í R-vík. Freyja birtist svo á sunnud. morgun þegar karlarnir fóru á sjó og áttum við góðan dag saman þeir sem eftir voru heima.
Afmæli hjá Sigurjóni Magg á laugard. kvöld.. Strákurinn sá er orðinn fimmtugur og hélt upp á það með pompi og prakt. Til hamingju enn og aftur.
Skemmtileg helgi liðin, sólin skín og ég finn vor í loftinu þó allt sé á kafi í snjó. Mokaði út í pottinn í gær og lágum við þar í sólbaði mæðgurnar með börnunum.
Gott.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 14:42
Völvuspáin 2009
Árshátíðin okkar slysókvenna var á laugardaginn og mættu rúmlega 100 manns í Tjarnarborg. Bara skemmtilegt þó margt hafi farið aðeins úrskeiðis, þá lærum við bara af því og gerum betur næst..hehehe:) Set hér völvuspána til gamans, en það er nú bara þannig að í gegnum tíðina hefur nánast allt ræst sem spáð hefur verið..
Völvuspá 2009 Jæja elskurnar mínar. Hér er ég komin 18 árið í röð að spá fyrir um komandi atburði ársins 2009. Eins og þið vitið hef ég oftar en ekki reynst sannspá svo þið eruð agalega heppin að eiga mig að.
Það er enginn krepputónn eða barlómur í mér frekar en fyrri daginn, þrátt fyrir ástandið, því þegar ég rýndi í kristalskúluna mína áður en ég kom hingað og kíkti á landið okkar, sá ég bara svart, en þegar ég gáði betur sá ég lítið ljós í myrkrinu og viti menn. ljósið var yfir firðinum okkar. Ójá.
Skærast skín hótelið okkar. Þar ráða nú ríkjum Hlynur og Helga og er skemmst frá því að segja að það verður vitlaust að gera. Munu þau hjónakornin bjóða upp á matreiðslunámskeið a- la- íslenskt. Hingað munu hópast fyrrverandi auðjöfrar, bankamenn og fyrirfólk úr borg óttans, henni Reykjavík, að læra að elda grjónagraut og gera slátur, rúgbrauð og sjóða fisk. Þar sem engir peningar eru eftir til að fara út að borða. Á kvöldin verða svo kvöldvökur þar sem dansað verður vikivaki, vals og ræll og munu starfsmenn og eigendur Hótelsins sjá um kennsluna í þjóðbúningum að sjálfsögðu.Uppselt verður á námskeiðin út árið og biðlistar myndast í sláturtíðinni í haust.
Í búðinni okkar Samkaup- Úrval verður sama sagan, brjálað að gera, því hingað streyma íslendingar í hrönnum til að finna hina einu sönnu peningalykt, sem landinn var búinn að gleyma, nema við hér í firðinum. Allir versla svo eitthvað í leiðinni, bara til að geta leyft ættingjunum að þefa þegar heim kemur, allir vilja finna peningalyktina. Ásgeir Logi mun sjá til þess að ilmurinn frá Norðlandía hverfi ekki í bráð og verður hægt að kaupa fýlu í fernum, í búðinni, sjoppunni og Höllinni.
Sparikassinn okkar stendur sig ágætlega á árinu, þar sem hann er svo lítill og lítið í honum gleymdist að ríkisvæða hann. Þar sluppum við með skrekkinn. Til að bæta eiginfjárstöðuna verður Óskar hennar Júlíönu með fé á fæti á föstudögum og Gummi, Óli Hjalli og Eggert leggja inn skjátur á mánudögum. Leysist þar með líka húsnæðisvandi fjárbænda, þar sem kjallarinn í sjóðnum verður sannarlegt fjárhús. Engin lykt mun finnast af þessu nýja fé í bankanum þar sem lyktin frá Norlandía yfirgnæfir allt.Fjárbændur munu þó færa sig yfir í fjárhúsin á Syðri Á í Desember og bjóða gestum og gangandi á sjónleikinn Jólaguðspjallið sem mun ganga fyrir fullu fjárhúsi langt fram á þorra.
Þá eru það blessaðir hestamennirnir okkar, af þeim verður það helst að frétta að þeir hætta í hestabransanum allt verður saltað og fryst. Það kom nefnilega á daginn eftir marga fundi, rifrildi og leiðindi að þeir hafa engan áhuga á hestum Þeir hafa bara áhuga á hesthúsum, svo að á vordögum munu flytja í hesthúsin litfagrir talandi páfagaukar sem skemmta eigendum sínum og rífast allan sólahringinn hvor við annan. Gaman..
Göngin okkar munu verða kláruð eins og til stóð. Grétar, Tommi og Minný á saumavélinni munu taka að sér að fóðra þau að innan með fínasta silki eins og þeir nota í líkkisturnar. Mun þetta auka ferðamannastrauminn svo um munar, og verða sannkallað frumkvöðlastarf sem eftir verður tekið.
Á bæjarskrifstofunni er stanslaust stuð. Hrafn félagsmála mun taka alla stóla úr húsinu og setja palla í staðinn, skilaboðin eru skýr.. ástandið á starfsfólkinu var það bágborið að við það mátti ekki sitja lengur, heldur skuli allir standa og fara í pallaleikfimi í tíma og ótíma þegar færi gefst. Eina vandamálið er Steini Ásgeirs honum er bara lífsins ómögulegt að setja VINSTRI fótinn fyrst á pallinn og verður því göngulag hans orðið ansi hallærislegt í haust, þar sem hann æfir BARA HÆGRI hliðina. Hins vegar taka ALLIR eftir því hvað Jón Hrói er góður vinstra megin, svo góður að málið verður sett í nefnd og rannsakað sem sakamál. Upp kemst að Jón Hrói hefur verið að stelast á fundi hjá SAMFYLKINGUNNI Meirihlutinn fær áfallahjálp.
Björgunarsveitin verður í fýlu mestallt árið. Eftir að hafa getað leitað í gullkistur slysavarnakvenna í áratugi verður nú breyting þar á. Hin nýja stjórn slysavarnadeildarinnar eyðir öllu í djamm og dekur. Endalaus partý, veislur og ferðir kosta peninga og það litla sem eftir verður fer í viðgerðir á Sandhóli þar sem miklar brussur eru komnar í stjórnina sem brjóta a.m.k. eina hurð, tvo stóla og slatta af leirtaui á hverjum fundi. Björgunarsveitin mun fara á fullt í að afla tekna. T.d munu strákarnir í sveitinni taka að sér barnapössun á kvöldin, vera með kaffisölu á hverjum sunnudegi og síðast en ekki síst verður hægt að leigja þá út með sér í verslunarferðir, og munu sjómannskonurnar hér í bæ nýta sér það í ystu æsar, að taka með sér pokastrák í stórmarkaðsferðirnar. Allt þetta mun gefast glimrandi vel.
Á Hornbrekku verður allt morandi í hjúkrunarfræðingum, já allar komu þær aftur og það verður ekki þverfótað fyrir þeim og skiptast þær á að vera aðal... Eva, Rut, Birna og Sigrún. Verður svo vel mannað að Ásgeir læknir getur sofið fram að hádegi alla daga þar sem hjúkkurnar taka viðtölin, gefa stíla, taka blóðþrýsting og sprauta bæjarbúa eftir þörfum. Mér sýnist að doktorinn okkar muni bæta forgjöf sína í golfinu alveg helling á árinu.
Kirkjukórinn blómstar sem aldrei fyrr í kreppunni. Slegist er um hvert sæti á æfingum og meira að segja eru kórfélagar farnir að mæta á réttum tíma til að fá sæti.. Líka Dísa og Brynja. Kirkjugestum fjölgar heldur hægar, en í haust sýnist mér allavega 17 mæta í messu, að Séra Mundu og meðhjálpurunum meðtöldum.
Eins og þið hafið nú heyrt þurfum við hér í firðinum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, við munum hafa nóg að bíta og brenna, þjónustan verður í hávegum höfð og skemmtanalífið mun snúast um að skemmta hvort öðru eins og best verður á kosið, já gamla Ísland rís upp aftur, og við förum að slappa af í kapphlaupi um krónur og evrur, það eina sem skiptir máli er mannauðurinn þegar upp er staðið.
Jæja elskurnar mínar, er þetta ekki orðið gott núna, þreytan er farin að segja til sín, En í almáttugs bænum farið varlega í kvöld, því hér eru margir andar á sveimi og gott ef einhverjir þurfa ekki að yfirgefa samkvæmið í fyrra fallinu.. svo gangið hægt um gleðinnar dyr.. við viljum ekki þurfa að segja í kvöld eins og konan forðum:
Yfir kaldan eyðisand
ein um nótt ég sveima mikið
nú er horfið Norðurland
nú er ég komin yfir strikið
Góða skemmtun og hittumst vonandi að ári.
Lífið er dýrt
dauðinn þess borgum
drekkum í dag
iðrumst á morgun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2009 | 11:25
Árshátíð slysó á næsta leiti
Þórður bróðir minn á afmæli í dag.
Til hamingju með daginn gamli.. múhaha
Annars hef ég verið heima í flensu eins og hálf þjóðin, en er að hressast og mun liklega drífa mig í vinnu á morgun. Konni búin að vera heimavið líka vegna brælu svo við höfum skemmt hvort öðru. Lena og Hafþór komu svo í gær, og fáum við að njóta samveru við þau fram á sunnudag. Meiningin er að skella sér á árshátíð Slysó á laugardaginn og vonandi verður þáttaka næg svo við þurfum ekki að hætta við. Kemur í ljós i kvöld þegar miðasölu líkur.
Þótti leitt að geta ekki séð barnabörnin leika sér á öskudaginn, en Guðný vinkona mín sagðist hafa tekið fullt af myndum sem ég skoða á síðunni hennar fljótlega. Veit ekki einu sinni hvað Harpa Hlín var á endanum, enda var hún búin að skipta nokkrum sinnum um skoðun undanfarna daga. konni litli átti að vera Eðla- eða dreki - en honum fannst þetta búningadót ekki spennandi eins og systur hans.
Slysavarna- og björgunarfólk.. drífa sig að kaupa miða á árshátíðina..
koma svo..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2009 | 14:43
Konudagurinn..
Helgin framundan.
Ellen Helga komin í fjörðinn fagra og ætlar að skemmta okkur með nærveru sinni og við auðvita henni. væntanlega vera þau (Konni, Ellen og Harpa) í mat hjá ömmu í kvöld og gista í framhaldinu þar sem foreldrarnir ætla að borða hjá Lísu skvísu. Ellen spurði mig strax í gærkvöldi hvort ég ætti ekki Mamma mia myndina og þegar ég neitaði því átti hún ekki til orð af hneykslun og spurði afa sinn hvort hann vissi hvaða dagur yrði á sunnudaginn.
Hann vissi það ekki, svo hún varð enn hneyklsaðri og sagði honum að það væri Konudagurinn, hvort hann vildi ekki gefa ömmu MAMMA MIA diskinn í konudagsgjöf? Jú honum fannst það nú ekki vitlaus hugmynd og sagði hún þá að ef hann yrði á sjó gæti amma bara keypt hann, en svo yrði hann að borga ömmu diskinn þegar hann kæmi heim.
Afinn reyndi nú að útskýra að hann ætti peningana sem amma verslaði fyrir svo hann þyrfti ekkert að borga henni til baka en Ellen var hörð á því að hann þyrfti víst að gera það.
Konni er nokkuð viss um að ég hafi kennt henni þessa hagfræði:)
Góða helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2009 | 11:38
Blása 2 --hnoða 30
Í gær fór ég á skyndihjálparnámskeið hjá Hörpu Jóns sem hún var svo góð að halda fyrir slysavarnarkonur hér í firðinum. Gott að rifja upp það sem maður hefur áður lært og ótrúlegt hvað maður man þegar maður er minntur á það..hehe.
Best fannst mér þegar hún sagði að það væri miklu mikilvægara að hnoða heldur en að blása. Einhverra hluta vegna held ég að ég sé ekki til í að blása í hvern sem er, en ég væri til í að hnoða hvern sem þarf.. En þetta eru nú bara stælar í mér og líklega þegar á hólminn er komið spáir maður ekki í neitt annað en að gera rétt .. blása tvisvar og hnoða 30 sinnum.
Konni minn hefur verið heima í nokkra daga og hefur notað tímann til að flísaleggja smá á baðinu hjá okkur. Erum að koma okkur upp langþráðri sturtuaðstöðu og ég get ekki beðið eftir að allt verði tilbúið. Hann fer svo á sjó í kvöld eða í nótt, en Sig. Óli hefur verið að róa undanfarna daga og fiskeríið hjá þeim fínt.
gott í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)