Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
28.2.2007 | 11:33
Flutningar...
Jæja.. þá er runnin upp síðasti dagur mánaðarins, og við í fjarvinnslunni erum í óða önn að pakka okkur saman og út. Erum að flytja í nýtt húsnæði, gamla Valberg..Það verður frábært ... svo mun okkur fjölga seinna í mars.
Siggi og Vala voru líka að flytja í gær, í stærri íbúð, og Harpa Hlín komin með herbergi sem hún svaf í alein fyrstu nóttina, hún var voða ánægð með sig þegar ég talaði við hana i gær, þessi hetja...Örugglega orðin hundleið á að sofa hjá mömmu og pabba, að verða 3 ára í sumar..Dúllan..
Ég hlustaði á mjög athyglisvert viðtal við Illuga Jökulsson í kastljósi á sunnudag.. Hann er án efa einn besti pistlahöfundur landsins.. finnst mér.. Þar talaði hann um æsku sína og að alast upp á heimili þar sem bakkus réð ferðinni, merkilegt þegar mamma hans sagði að hann hefði ryksugað og skúrað þegar ástandið var slæmt.... Datt í hug hvernig ég hef í gegnum árin djöflast með moppuna , þegar mér hefur fundist veröldin vera að hrynja í kringum mig... skúra ..bóna.. moppa..skúra meira og moppa.. ekki leggjast í rúmið, heldur taka kústinn og moppa.....ekki gefast upp...
Illugi hefur sem barn ekki heldur viljað gefast upp, reynt að gleðja mömmu sína og ryksugað???
Einu sinni sagði góð vinkona mín og prestur hér í firðinum, við mig að hún gæti séð hvernig ástandið á heimilinu væri með því að skoða gólfin... svo hló hún... og fannst gólfin allt of skínandi.... Svona er þetta bara, enda allt betra en að gefast upp á ástandinu. Það er ekki í boði.
Nú hefur allt gengið stórslysalaust fyrir sig í tæpt ár, og ég skúra minna, en gólfin eru samt yfirleitt hrein, svo að þið sem lesið bloggið mitt farið ekki að vera eins og presturinn forðum, að fylgjast sérstaklega með því...ha ha..
Ég er á kafi í Íslandsklukkunni þessa dagana, á að skila lokaverkefni úr henni á sunnudag..Mikið verð ég fegin þegar það er frá..Annars búið að vera mjög gaman að lesa og pæla i henni.
Freyja hressist með hverjum deginum, hnéið bara gott og það er frábært... Gott í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 16:12
Til hamingju afmælisbörn í febrúar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 14:20
Komin heim í sveitina..
Þá er maður komin heim í sveitina sína aftur eftir borgarheimsóknina. Aðgerðin á Freyju tókst vel og var hún hin hressasta þegar hún vaknaði, svo hress að hún heimtaði að fara á rúntinn um kvöldið og fá ís...Ellen Helga studdi hana dyggilega í því en hún var hjá okkur áfram tvær nætur dúllan..
Á föstudag fórum við svo í heimsókn á Landakot þar sem mínar elskulegu föðursystur Rósa frænka og Sigga frænka voru í dagvistun, þær héldu auðvita að þær sæu ofsjónir, því ég hef ekki verið dugleg að kíkja á þær er ég hef skroppið suður. Það var yndislegt að hitta þær, þær voru svo glaðar og sætar, held samt að ég hafi verið enn glaðari, sagði við Freyju og Konna að Alþingisveislan toppaði ekki heimsóknina til þeirra. Þær eru báðar í hjólastól, eru orðnar gamlar konur, sem minnti mig enn og aftur á hvað maður má vera þakklátur fyrir hvert ár sem skellur á mann.. Set fljótlega inn myndir sem sanna heimsóknina til þeirra...
Jú jú, við skruppum í búðir, þessar yndislegu inniverslanir í Kringlu og Smára, það var svo kalt úti.. Við Guðný brutumst svo inn í Vetrarhöllina í Smáranum þar sem söng-dívan okkar hún Inga var að æfa.. Það var voða gaman að hitta hana.. Alltaf sama gamla Inga, svo hrein og bein.. svo var hún eitthvað svo falleg, það geislaði af henni gleðin og svo söng hún auðvitað eins og engill..
Starfsmannaveislan á Hótel Sögu (fengum ekki að sjá neinar klámmyndir) var mjög flott að venju, maturinn og skemmtunin frábær, Ragga Gísla söng nokkur lög úr kvikmyndum, frábær karlakvintett, Níels Árni Lund klikkaði ekki frekar en fyrri daginn, og svo rúsínan í pilsuendanum... Jóhannes eftirherma tók þingmenn og ráðherra til bæna..hreint út sagt frábær.
Skelltum okkur svo á Players seinna um kvöldið að hitta sveitungana sem þar höfðu safnast saman til að styðja okkar fólk í X-factor.. Mjöööög skemmtilegt... Stoppaði nú ekkert mjög lengi þar því Konni var orðinn svo "lúinn" hm..hm.. Við förum nú yfirleitt ekki mikið út á djammið við Konnsi, en alltaf er jafn skemmtilegt að koma heim, líta í spegilinn og sjá að maður er bara jafn fallegur og þegar maður fór út. .. Það er af sem áður var, þegar maður kom heim með hausinn undir hendinni og það ljótan haus. ..Úff..Þá hugsa ég um hvað það er frábært að vera hætt að drekka brennivín..jú.. hú
Á laugardag fórum við Konni í eldhúsleiðangur, Hörður á siglingaráðstefnu, en Freyja hvíldi sig heima. Fórum síðan í bíó.. alle sammen.. um kvöldið og svo fljótlega í háttinn því ég var komin með Kringlu og Smáraverki í skrokkinn. Kannske voru þetta harðsperrur eftir danstaktana á Players, en Konni hallast heldur að K-S verkjum.
Kvöddum Ellen Helgu á sunnudag, fórum með Freyju og Hörð í flug, í Smárann, (ég þurfti nauðsynlega að versla smá..) svo heim á leið og komum í fagra fjörðinn um 7 leytið. Alltaf gaman að skreppa í burtu...
Enn skemmtilegra að koma heim...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 11:48
Bollu.. sprengi..öskudagur.
Ég hef verið allt of södd og illa á mig komin til að blogga undanfarið. Á bolludaginn át ég helling af bollum í vinnunni, og alla helgina var bolludagur heima. Varð svo auðvita að elda saltkjöt og baunir í gær handa Ellen, því hún sagðist ekkert vita hvað það væri. Ég át auðvitað yfir mig, en henni leist vel á baunirnar, spurði hvenær við myndum fara að leysa vind (hún notaði reyndar ekki þessi orð yfir það). Ég sagði að það yrði í bílnum á leið suður í dag, og hana hlakkar ekki til að keyra með okkur afa, ef við verðum fretandi út og suður..
Við erum sem sagt að fara suður i höfuðstað Íslendinga seinni partinn í dag, amma, afi, Freyja og Ellen. Freyja er að fara í aðgerð á hnéinu hjá Sveinbirni Brandssyni á morgun og vonandi fær hún bót meina sinna, búið að vera ömurlegt ástand á henni oft á tíðum, þegar hnéið læsist og ekkert hægt að gera nema sprauta með morfíni og losa aftur.
Við vorum svo heppin að fá íbúð á góðum stað í höfuðstaðnum, sem Guðbjörn reddaði mér..þessi elska...rétt hjá spítalanum.
Starfsmannaveisla Alþingis er svo á föstud. og munum við fjölmenna héðan að norðan frá fjarvinnslunni.. Alltaf gaman að hitta fólkið að sunnan og nauðsynlegt fyrir okkur að mæta til að halda tengslum við það.
En nú er öskudagur og til okkar hafa streymt allskyns undarlegar verur mannlegar og ómanneskjulegar, sem hafa sungið og performað ýmislegt. Gaman hvað margir hafa samið texta og lög svo ég tali ekki um rapparana sem hafa komið. Ellen Shcarlett O'Hara kom snemma með Ingu skratta og Daða Spiderman ... Voða skemmtilegt..
Konni hefur verið á sjó og fiskeríið ágætt þegar hann hefur komist út fyrir fjarðarkjaftinn, annars yfireitt mjög hvasst á miðunum og nú er bálhvasst hérna. Ælum að eiga góða helgi fyrir sunnan með sjúklinginn, Hörður mun svo koma á föstudag og passa sína heittelskuðu með okkur..
Nóg að sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2007 | 11:20
Ömmuhelgi...
Ég heyrði viðtal við einhvern neytendafrömuð í vikunni þar sem hann var að hvetja fólk til að taka vörur í fóstur.. Mér finnst það alveg brilliant hugmynd, í stað þess að maður fylgist með verði á öllu drallinu , velur maður sér 1-3 vörutegundir og fylgist með hvort verðið lækki 1. mars..það á að lækka... og svo hvort það heldur, eða fer að hækka fljótlega aftur.
Ég er í að minnsta búin að velja mér 2 vörutegundir: Hafragrjón og Kaffi frá Merrild sem ég nota. kannske á ég eftir að taka einn ávöxt eða grænmeti í viðbót..
Það er mikið fjör á Hlíðarveginum núna. Ellen Helga kom norður í gær við mikinn fögnuð fjölskyldunnar, ég fór með mömmubollur inneftir í gær og hittumst við hjá Sigga og Völu, familían og átum á okkur bollugat. Keyptum öskudagsbúning á prinsennuna, hún valdi sér Scharlett O'Hara kjól og hatt og Lena lánaði henni svo svarta uppháa hanska...voða flott.
Konni og Sig. Óli fóru svo austur í gærkveldi á sjó. Það er eittvað farið að lægja vind. Harpa og Ellen komu heim með ömmu í fjörðinn, horfðum á X faktor og lékum okkur. Sofnuðu um miðnætti og Ellen vakti mig um 4 í nótt til að athuga hvort hún mætti fara á fætur. Náði að halda þeim í rúminu til 7.30. þá vildu dömurnar nú ekki liggja lengur... svo amma er frekar syfjuð núna... en ég sef bara seinna. Freyja ætlar svo að heimsækja okkur á morgun og þá verður nú gaman...jú ..hú..
Á Akureyri í gær, skrapp ég í búð, flýtti mér svo aftur til Sigga og Völu með pokann, skildi ekkert í því af hverju allt var læst... áttaði mig fljótlega á því að ég var ekki einasta í vitlausri íbúð, heldur i vitlausu húsi líka...djö..djö.. hvað ég er rugluð.. Versta var að þegar ég var dröslast með pokann aftur i bílinn, keyrðu Sig. Óli og Konni framhjá, Siggi snéri sig nánast úr hálslið þegar hann sá mömmu sína og þar sem þeir þekkja mig nokkuð vel, kveiktu þeir strax á perunni.. nú hefur mamma verið að berja upp á hjá ókunnugum.. ekki í fyrsta skipti... Oh hvað ég var óheppin að vera staðin að vitleysunni
Nóg í bili
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2007 | 15:28
Lok lok og læs ....
já... það er eins gott fyrir mann að fara að læsa húsum og taka lyklana úr bílnum... Brotist inn í nokkur hús hér í bænum í gærdag.. á meðan fólk var í vinnunni... Mér skilst að sum húsin hafi verið ólæst.. Ég þarf sérstaklega að taka mig á, tek aldrei lykla úr bílnum, og læsi aldrei húsinu nema ég sé að fara í burtu í nokkra daga... þetta verður endurskoðað núna. Þetta var aðkomufólk.. eins og blaðamenn á Akureyri segja alltaf...Þegar fréttirnar eru neikvæðar.
Loksins að verða frísk. Fór að vinna í gær, mikið fegin að komast í hversdagsleikann aftur, en ég treysti mér ekki í ræktina í morgun, ætla að sjá til í fyrramálið..
Hlustaði á fréttir þess efnis að lífeyrissjóðirnir ættu 1.500 milljarða.. eittþúsundogfimmhundruðmilljarða.. Hvurslags andsk. vitleysa er þetta. Kom fram í fréttinni að lítið færi til félaganna!!! Til hvers þurfa sjóðirnir að eiga alla þessa peninga... spyr sá sem skilur ekki..
Kennurum er víst líka misboðið eins og mér.. en ekki út af eigum lífeyrissjóðanna, nei þeim er misboðið út af launamálum. einn ganginn enn.. Byrjunarlaunin eru bara 260 þús. Stundum finnst mér eins og kennarar séu eina stéttin í heiminum sem hefur menntað sig...og finnst þeir aldrei metnir að verðleikum. .. kannske öfunda ég bara kennara..vildi að ég hefði byrjunarlaun þeirra..
Konni minn kom færandi hendi frá Akureyri á VALENTÍNUSARDAGINN ...hann færði mér þakrennur..já þakrennur.... og ég hefði ekki orðið glaðari þó hann hefði keypt súkkulaði og rósir.. eða nærföt.. vantar ekkert svoleiðis, en virkilega að verða vitlaus á þvi að komast inn í rigningu án þess að verða hundblaut... TAKK ELSKU KARLINN.
Lena hringdi í gær, sagðist vera að koma í heimsókn og bað um mömmumat.. kjúlli a..la..mamma..það var að sjálfsögðu uppfyllt og áttum við góða spjallstund yfir matnum..
ég fór og heimsótti skólastjórann í dag..nei..ég var ekki að biðja um vinnu, heldur að athuga hvort Ellen Helga mætti koma í skólann í næstu viku.. og var það auðsótt mál..Takk takk. Hún er að koma í heimsókn á morgun og verður hér þar til við förum suður um miðja næstu viku..Sú verður ánægð, það skemmir heldur ekki að Lísa vinkona okkar er að kenna 1. bekk.
Mál að linni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2007 | 12:38
Án tengsla við samfélag manna getur maðurinn ekki lifað..
Ekki fór ég í vinnuna í morgunn.. Skal vera hressari í fyrramálið.. ótrúlega leiðinlegt að hanga heima, hvorki né eins og maður segir. Ekki nógur hress að sitja við tölvuvinnu allan daginn og ekki nógu veik til að liggja í rúminu.
Mikið var ég glöð að sjá Silvíu Nótt á skjánum í gærkvöldi, fann að ég hafði saknað hennar og vitleysunnar i henni. Konni var ekki eins glaður ..... enda er hann eldri og þroskaðri á þessu sviði en ég. Hann er ekki vitleysingur eins og ég.. hann hefði t.d. aldrei látið sér detta í hug að kveikja í sígarettu í Héðinsfj.göngunum eins og ég ætlaði að gera um daginn.. Standandi upp við bíl sem á voru 700 kíló af dýnamiti...Heppilegt að ég var stöðvuð í tíma ..enginn skaði skeður.. Við hlógum mikið að þessu við Guðný þegar við vorum komnar út og hún sagði: Sigga heldurðu að það hefði verið skemmtilegt fyrir afkomendur okkar í framtíðinni ..þegar þeir væru að keyra göngin, að stoppa alltaf þegar þeir væru komin 1/2 kílómetra inn, og einhver segði: Hér er nú amma Sigga út um allt og á afmælisdögum yrði ekki farið í kirkjugarðinn, heldur í göngin... Þetta fannst okkur hryllilega fyndið...
Spurning hvort til sé verndarengill vitleysinga, eins og Santa Barbara, sem er verndarengill þeirra Tékknesku sprengjumanna sem vinna við göngin...
Nú styttist í að við vinnufélagarnir hjá Alþingi flytjum í nýtt húsnæði, erum ekki að fara langt, heldur í næsta hús, gamla Valberg og verðum þar á neðri hæð, ég er farin að hlakka til, en mun þó sakna Jónínu frænku og Nönnu og kaffispjallsins. Flytjum um mánaðarmótin feb-mars.
Sigurður Óli landaði rúmum 3 tonnum í gær og gekk bara vel hjá honum, Gleymdi í gær að þakka honum fyrir kvittið í gestabókina og öll verkefnin sem hann var fljótur að finna handa mönmmu sinni. Hann þekkir sitt heimafólk og flutningatækni foreldranna sem eru búnir að flytja hann og fleiri fram og aftur gegnum tíðina. Siggi! við erum hætt með þetta flutningafyrirtæki....he..he..
yfir og út...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2007 | 13:37
Hor og slef..
Jæja, jæja. ég hef legið heima veik síðan á föstudag. Eyddi helginni á sama stað, en fór þó af og til í tölvuna að reyna við myndirnar...og viti menn... það tókst í gær að setja inn nokkrar myndir..Þökk sé Völu tengdadóttur minni sem kom með Hörpu í heimsókn til ömmu. Hún kom mér af stað og við áttuðum okkur á að ég hef verið svo óþolinmóð... ekki gefið vélinni tíma til að vinna. En nú er þetta að koma hjá mér.
Horfði á X-factor á föstudag með Ólöfu vinkonu og Barða. Það var gaman að okkar fólk, Inga og Gylfi komust áfram..Áfram áfram.. ég var að vona að Ellý dómari dytti út en það voru Fjórfétturnar (kápukór þeirra R-víkinga) sem þurftu að fara og mér var nú slétt sama..
Á laugardag bakaði ég köku, hringdi svo í allt góða fólkið sem hafði boðið mér í mat í vikunni og bauð þeim á kökukynningu (Þetta var ný uppskrift sem ég bauð upp á) Hún sló auðvita í gegn, hefði klárast ef Arnar hefði verið með..Þórður tók þó hraustlega í hana...
Þið sem hafið skrifað í gestabókina: Takk fyrir falleg orð og hvatningu til mín, og Arna mín eina sanna ég æla að vera dugleg að setja inn myndir svo þú getir fylgst með okkur...hvað við eldumst misvel og sjolleiðis. Ég var nefnilega að biðja Konna að taka mig með til Húsavíkur næst þegar hann færi á sjó.Það eru víst fínir lýtalæknar þar....djók.. nei , nei ekkert djók. Mér finnst ömulegt að hafa ekki farið í neina lýtaaðgerð ennþá, svo hver veit nema maður verði með glóðarauga á báðum þegar vorar..he..he.
Við Harpa hringdum í Ellen Helgu í gær, það er svo sniðugt að sjá Hörpu tala við systur sína..hún verður svo blíð og feimin á svip. Ellen ætlar að koma norður á föstudaginn og stoppa nokkra daga. Það verður ekki leiðinlegt
Konni er kominn í 2-3 daga frí núna, Var með tæp 10 tonn á laugard og 2 á sunnudag, voða öfgar..Sigurður Óli leysir pabba sinn af og vonandi gengur vel hjá honum. Veðrið er mjög gott í dag frostlaust loksins og þá hægt að opna glugga án þess að frjósa.. Vonandi druslast ég í vinnu á morgunn.
Bless í bili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.2.2007 | 20:55
Men in sokkabuxum..
Ég rakst á ferlega fyndna frétt í mogganum um daginn... Einhver fataframleiðandi að setja á markað sokkabuxur fyrir karlmenn..... Ég sé Konna minn stanslaust fyrir mér í þunnum ljósum sokkabuxum, sirka 20 den innan undir stuttbuxunum í sumar og í svona sússaskóm (jesú).... oh my god ... og hárin liðast innanundir.. ég býst við að ég fengi sama elskulega og heimskulega spurnarsvipinn frá honum ef ég færði honum sokkabuxur og þegar ég gaf honum andlits-rakakremið um árið.. og hann spurði hvað hann ætti að gera við þetta????
En kannski á maður ekki að gera grín af karlasokkabuxum, kannski margir menn búnir að bíða og bíða eftir þessu t.d íþróttastrákar sem þurfa að æfa í kulda, geta nú fengið þykkar sokkabuxur innanundir ... Það var að sjálfsögðu tekið fram í fréttinni að þær væru með tippaklauf.....
Ég lá heima í kvefi og leiðindum í dag, svaf nú mestan partinn, Þórgunnur bauð mér svo í mat í kvöld..það var æðislegt.. Er reyndar búin að vera í mat hjá mömmu og Hófý og Þórði líka í vikunni svo ég er ótrúlega heppin... Það er enginn búinn að bjóða mér á morgunn djók..
Lena fór suður í dag með vinum og vinkonum, þau eru að fara á eitthvað dj djamm, vonandi verður bara gaman, en ég verð að viðurkenna að ég fæ alltaf hnút í magan þegar hún fer í borg óttans.. þær ferðir hafa ekki allar verið farnar til fjár .. eins og þar stendur..verð fegin þegar hún verður komin norður aftur á sunnud.
Konni landaði 7-8 tonnum á Húsavík í dag, sokkabuxnalaus í kuldanum en í föðurlandinu ..vonandi.
Nóg um neðriparta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2007 | 20:30
Óhreinu börnin hennar Evu..
Ótrúlegt hvað sumt fólk skilur ekki að þeirra tími er liðinn, eða að þeirra tími kom aldrei.. Kristinn H. nú genginn til liðs við Frjálslynda.. farin frá Framsókn, þar áður frá Allaböllunum. Skilur maðurinn ekki að fólk vill hann ekki.... nei ..fer bara í annan flokk... .. Ég botna ekkert í manninum.
Var að horfa á Kastljós, Breiðavíkurmálið var til umfjöllurnar. Þvílíkur hryllingur sem þarna hefur átt sér stað. Öll mannréttindi voru brotin á þessum drengjum sem voru bara gleymdir. Maður skilur ekki heldur hvers vegna þeir voru hafðir þarna allt upp í 5 ár...5 ár...
Það er ljóst að víða er pottur brotinn í dag í meðferðarmálum hér. Það sem ég þekki til í áfengismeðferðargeiranum hef ég stundum fengið á tlifinninguna að margir þessir staðir sem hin og þessi samtök eru að reyna að reka ... af meiri vilja en mætti, séu geymslur fyrir óhreinu börnin hennar Evu, sem enginn hefur áhuga á að vita af, sér í lagi stjórnvöld sem tala fjálglega fyrir kosningar um að nú þurfi að taka á málunum. En ekkert gerist....Meira um það síðar....
Ég er hálf slöpp þessa dagana, held að flensan sé að ná í skottið á mér, en dreif mig samt í ræktina kl 7 í morgunn. Það var bara hressandi. ótrúleg vellíðan sem fylgir því að hreyfa sig aðeins. Konni landaðii 3.5 tonnum í morgunn á Húsavík, sagði mér að höfnin væri ísi lögð enda ansi kalt þessa dagana 13-14 stiga frost. Fallegt gluggaveður. Talaði við Hörpu litlu Hlín áðan, hún tilkynnti mér að hún ætli að vera Solla stirða á öslkudaginn.. Hún elskar latabæ
Engar myndir komnar inn hjá mér ennþá. Það er ekki mín sterkasta hlið og ég þarf líklega að kalla á hjálp við það...er búin að reyna ... en þær koma ekki inn á síðiuna.. vonandi fóru þær ekki á flakk...Krakkarnir gáfu mér fína og einfalda myndavél í afmælisgjöf í sumar og hef ég verið dugleg að mynda, enda bara einn takki sem ég þarf að ýta á.... Ég mun ekki vinna ljósmyndakeppni en þær sýna fólkið mitt og samferðamenn við ýmsar uppákomur.... það dugar fyrir mig.
Gott að sinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)