Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
28.2.2008 | 11:30
Andlitslyfting á einni nóttu...
þegar ég leit í spegilinn í morgun, varð ég mjög undrandi og leit í kringum mig, leitandi að sjálfri mér á baðherberginu. Ég þekkti ekki þessa spegilmynd, en kannaðist samt við hana, vissi fyrir víst að þetta var ekki ég. Andlitið var spegilslétt, ekki ein einasta hrukka sjáanleg, andlitið kringlótt og augun eins og í kínverja, engin augnlok sjáanleg, en rifaði þó í augasteina.
Eftir smá leit, gafst ég upp og horfði aftur. Jú þetta var ég þarna í speglinum og það þyrmdi yfir mig. Hver stal hrukkunum mínum sem voru á sínum stað í gær? Ég hef safnað þeim samviskulega í mörg ár, sérstaklega á enninu, lít oft út fyrir að vera hissa því ég passa upp á að ennishrukkurnar mínar séu vel skornar. Hef alltaf sagt við mömmu þegar hún er að skamma mig fyrir þetta að ég vilji frekar vera hissa á svip, en grimmdarleg, sem ég verð þegar ég slétta ennið og píri augun. Bros og hláturhrukkurnar við augun eru líka farnar og sakna ég þeirra ekki síður en ennishrukkanna. Minnst finn ég fyrir söknuði vegna Malboro-Viceroy- Camel-sugu hrukkunum kringum munninn, enda eru þær nýjastar og hef ég ekki náð að tengjast þeim tilfinningalega eins og hinum.
Líklega er þetta bjúgur, ofnæmi eða hreyfingarleysi. Kannske allt í bland. Hendur og fætur eru bólgin og þrútin, hef ekki upplifað þetta áður og satt að segja finnst mér þetta skemmtileg andlitslyfting svona í byrjun Góu, kostaði ekkert og enginn sársauki með þessu. Ef mér fer að leiðast nýja lúkkið, eða hrukkusöknuðurinn yfirbugar mig,fer ég bara í Apótekið og fæ pillur við þessu. Hver veit nema að ég fá leiðsögumann til að sýna mér hvar ræktin er (Týndi slóðinni í janúar og hef ekki haft neina þörf fyrir að finna hana aftur... enn..)
Ójá.. maður á að gleðjast yfir öllu sem lífið færir manni..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.2.2008 | 11:35
Flugdrekahlauparinn í bíó....
Þórður stóri bróðir minn átti afmæli í gær, og gleymdi því, einhverra hluta vegna finnst mér hann alltaf eiga afmæli 27. febrúar, semsagt í dag, svo ég hringdi í konuna sem fæddi hann til að vera viss. Hefði betur hringt í gær..
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINNI Í GÆR KÆRI BRÓÐIR MINN
Ætla alltaf að muna það hér eftir að við systkynin eigum öll afmæli á sléttri tölu...muna það... koma svo..
Annars ekkert að frétta af þessum bænum, leiðindaveður og sjóararnir mínir í landi, ég að drepast úr leti þessa dagana og það er bara gott. Sýnir að maður kann að gera ekki neitt, án þess að þjást af samviskubiti. Ég mæti þó í vinnuna með herkjum, kem of seint á hverjum degi og vinn þá lengur til að bæta það upp. Tek eina og eina í neglur svo ég er nú ekki alveg ónýt.
Mikið var ég glöð í gær er ég sá að Flugdrekahlauparinn verður frumsýndur um helgina í bíóhúsum. Það er ekki langt síðan ég las bókina og er hún mér enn í fersku minni, enda afar grípandi og góð lesning. Fékk alveg nýja sýn á heim múslima og almennra borgara í Afganistan, komst að því að maður veit ekkert, nema það sem vestrænir fjölmiðlar mata okkur á, einhverri samsuðu sem hentar í það og það skiptið. Allavega þykir mér vænt um persónur bókarinnar og lifði mig mjög svo inn í aðstæður þeirra og örlög.
Hvet alla á bíó, það ætla ég að gera um helgina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 15:02
Friðrik og Regína til Serbíu
Þá er það á hreinu. Friðrik og Regína fara til Serbíu í vor, ekki sem bakraddir heldur aðal.. Flott frammistaða hjá þeim í gærkvöldi og vonaði ég heitt og innilega að þau hefðu það núna eftir að vema 2 og 3 sæti undanfarin ár. Fannst líka nokkuð gott innslagið hjá Friðrik Ómari, að hæst glymji í tómri tunnu og var hann líklega að vísa auglýsingaherferð HO HO HO.. lagsins sem mér fannst að vísu skemmtilegt atriði en söngurinn afleitur.
Annars allt í rólegheitum á þessum bæ, sjóararnir á sjó, nema Siggi sem lenti í ömurlegu óhppi í fyrrinótt er hann var að leggja í hann, keyrði utan í bryggjuenda og brotnaði eitthvað "nefið" á bátnum, svo hann er kominn í slipp á Akureyri, vonandi að þeir verði snöggir að gera við.
Fiskeríið búið að vera fínt og vonast minn maður til að komast yfir 100 tonn í mánuðinum, það lítur svo sem ekkert vel út vegna leiðinda veðurspár næstu daga.
Konur.. til hamingju með daginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 13:41
Engir hrútspungar..
Á laugardag er síðasti dagur þorra. Af því tilefni ákvað ég að hafa þorramat handa fólkinu mínu í gærkvöldi, þar sem sjóararnir voru heima í brælu eftir góða daga á sjónum, allavega hefur fiskeriið verið með besta móti. Við hjónin áttum erindi á Ak og ætluðum því að nota tækifærið og ná okkur í súra punga og hákarl á þorrablótið. Við fórum í sjö matvöruverslanir en hvergi fengum við pungana né hákarlinn, stoppuðum í Úrval á Dalvík og þar var sömu sögu að segja, enduðum í heimabyggðinni og náðum þar í hákarlinn en pungarnir voru uppurnir. Við vorum semsagt of sein að blóta þorra þetta árið í súru, en átum aðallega nýtt og reykt kjöt, síld, hákarl og harðfisk.
Hlakka til konudagsins, Góa byrjar og hver dagur færir mann nær vorinu. Ég er orðin svo frek að ég nenni ekki að bíða eftir vori og góðu veðri, nenni ekki að hafa snjó og kulda, nenni ekki að klæða mig í "sofu"sokkana á kvöldin. Ég notaði tækifærið á AK í gær og sagði mínum manni að gott væri fyrir hann að kaupa konudagsblóm handa mér strax, þar sem hann yrði líklega ekki heima á sunnudag. Fór með hann í Blómaval og valdi mér tvær fallegar pottaplöntur sem munu sóma sér vel og gleðja mig lengur en þau afskornu. Svo langar mig mikið í konudagstertuna sem auglýst var frá Kristjánsbakaríi, svo ég kanske útvega mér hana fyrir helgina svo ég geti notið dagsins í botn, enginn heima að eta hana frá mér.. hehe.
Sé til hvað verður..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2008 | 13:47
Föstudagar..
Alltaf jafn gott þegar föstudagur er runnin upp svo ég tali nú ekki um þegar vinnutíminn er liðin og maður er komin í helgarfrí. Ætla að eiga góða helgi, þvo glugga úti ef veður leyfir, negla svolítið og prjóna, borða nammi og fara í göngutúra. Nú þarf ég nauðsynlega að fara út með hundinn svo hann fái hreyfingu og óhjákvæmilega fæ ég hreyfingu í leiðinni. Það er kannske ekki svo slæmt þegar á allt er litið.
Mamma bauð mér í mat í hádeginu og ég spurði hana hvort hún vildi eiga hundinn og kerla sagði strax já, ef ég passa hann fyrir hana þegar þarf. Ég hélt það nú.. það væri ekki vandamálið, en að vísu á ég ekkert í þessum hundi svo ég verð víst að spyrja Lenu hvort amma megi eiga hann. Er nú ekki viss um að Lena samþykki það, svona til frambúðar.
Konni og Lena á sjó og landa á Raufarhöfn, hafa verið að mokfiska og Siggi líka en hann er einhversstaðar við Grímsey. Það lítur út fyrir að hægt verði að róa um helgina og er það þá í fyrsta skipti í margar vikur að hægt er að róa dag eftir dag..
Í gær var ég í sogæðanuddi hjá Ólöfu vinkonu minni og það var alveg æðislegt.. þvílik slökun og vellíðan á meðan og á eftir.. Hún er bara snillingur konan sú.. Takk takk...
Freyja kemur vonandi í heimsókn um helgina, hlakka til að hitta stelpuna, ætla að elda eitthvað gott handa okkur og sukka svolítið..
Góða helgi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2008 | 14:45
Útidyrahurðin góða
Nú er úti veður vont. Þannig er það í dag í firðinum fagra og akkúrat ekkert fallegt við rokið og kuldan sem smýgur í gegn um merg og bein. Gott að vera inni og helst undir teppi með prjóna eða góða mynd í tækinu.
Freyja mín var að opna myspace síðu á dögunum og er hún ekkert smá flott. Svo ég tali nú ekki um fötin sem hún er að hanna og sauma og má sjá á síðunni. Auðvita er mamma búin að setja link á hana hér til vinstri, svo allir geti séð hvað hún er mikill snillingur stelpan. Verst að maður þarf sjálfur að vera með svona síðu til að geta kommentað og skoðað almlennilega.
Þau undur gerðust á laugardag, að á meðan ég var lokuð inni í naglaherberginu svokallaða að Konni minn skaust til Akureyrar og keypti nýtt handfang á útidyrahurðina og ekki nóg með það, heldur setti hann það á og nú getur fólk komist inn og út hjálparlaust hjá okkur, þó það hafi enga æfingu né próf á hurðina. Þetta hefur verið gestaþraut heimilisins að lofa fólki að reyna að komast inn og út, margir hafa reynt en mjög fáir hafa uppskorið opna hurð. Vinnufélagar mínir skildu t.d ekkert í því af hverju ég læsti aldrei húsinu, fyrr en þeir reyndu sjálfir að komast út eða inn hjálparlaust. Þá uppgötvuðu þau að það væri óþarfi að læsa. Þarna inn fer enginn nema með áralanga þjálfun á húninn. Enginn þjófur hefði haft þolinmæði til að reyna við innbrot hjá okkur.
Gallinn er að vísu sá að gamla flotta hurðardótið skildi eftir sig ljót för og göt á hurðinni sem ég mun fylla með tréfyllu með tíð og tíma og mála svo. Hurðarflekinn sjálfur er nú líka orðinn ansi lélegur, hann mátti illa við því um árið þegar eiginmaðurinn missti háþrýstidælu á hana og fannst svo gaman að sjá viðinn holast að hann gat ekki hætt. Ég þurfti að kasta mér á manninn til að ná dælunni af honum og benda á að þetta væri viður, ekki steypa, en tilgangurinn með dælunni var að losa gamla málningu af húsinu. Svei mér ef hann verður ekki enn skömmustulegur þegar hann gengur inn um hina margumtöluðu hurð. Hún mun samt fá að standa eitthvað áfram og minna hann á óknyttina.
Á konudaginn í fyrra gaf hann mér þakrennur mér til mikillar ánægju, spurning hvort hurðarhandfang sé konugjöfin í ár.
Kemur í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2008 | 15:28
Bloggari í ár
Um þessar mundir, eða nánar tiltekið 6. febr. sl. var ár liðið síðan ég ritaði fyrstu bloggfærsluna hér. Margt bullið hefur gengið í bunum úr fingrum mínum á þessu ári, en sumt er alveg í lagi, finnst mér. 23.468 flettingar á síðunni og þakka ég kærlega fyrir það. það kitlar hégómagirndina í mér að vita fólk kíkja hér inn til að "tékka" á mér og mínum.
Mér hefur orðið tíðrætt um fjölskyldu mína, enda ekkert mikilvægara undir sólinni en hún og hennar velferð. Það vill nú svo til að það hafa ekki allir meðlimir hennar náð að fóta sig jafnvel í lífinu og sumum verður meiri fótaskortur en öðrum. Það er mjög erfitt fyrir hina að horfa á ástvini falla í gryfju sem ekki er auðvelt að komast upp úr. Við höfum verið heppin. Í dag er enginn niðurgrafinn í heimi fíknar og alls hryllingsins sem þeim ömurlega heimi fylgja. Hins vegar eru afleiðingarnar enn að koma í ljós og verður enn um sinn. Í dag lauk tveggja ára óvissu, niðurstaðan ekki eins og við vonuðumst eftir, en hefði getað verið verri. Biðin er í það minnsta á enda og þó niðurstaðan hafi verið sjokk, þá er vissu fargi af manni létt. Nú er bara að bretta upp ermarnar, þurrka af, moppa og taka til eftir sig. Það kemur alltaf nýr dagur, það er alltaf trú og von.
Eins og sonur minn sagði i hádeginu" mamma mín, þetta tekur enda".
Ég trúi honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2008 | 15:50
Öskudagur- góður dagur
jæja, nú er langt liðið á öskudaginn og búið að vera þvílíka fjörið hjá okkur í vinnunni. Fullt að furðulegum verum hafa heimsótt okkur, sungið, farið með ljóð og fengið nammi í staðinn. Gaman hversu margir hópar hafa haft fyrir því að semja öskudagstexta við lögin sem þau fluttu.
Eftir hádegi var svo "köttur" slegin úr tunnu í íþróttahúsinu og fór ég að upplifa stemminguna með Völu, Hörpu og Konna litla sem skemmtu sér konunglega, allavega Harpa Hlín sem var tígrisdýr í tilefni dagsins. Konni litli var nú ekkert sérstaklega glaður, heldur horfði alvarlegur á allt þetta skrítna fólk og verur sem þarna voru.
Sólin skín nú í fyrsta sinn inn um gluggana á þessu ári og er það bara yndislegt. Maður finnur hversu lundin léttist. Búið að blása af Þorrablót kvenfélagsins vegna ónógrar þátttöku. Leiðinlegt fyrir þær, en ég verð að segja að mér var frekar létt, búin að taka að mér veislustjórn, svo nú sé ég fram á rólega helgi. Þær hafa reynt að stíla upp á að hafa a.m.k. inn togara í landi, enda hafa sjóararnir verið duglegir að mæta með spúsur sínar, en það gekk ekki upp í þetta skipti.
Það er nú svo..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2008 | 13:47
GO GO
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2008 | 13:30
Bollur og búningar
Búið að vera nóg að gera svo ég hef ekki nennt að blogga. Aðalástæðan er líklega sú að ég er að lesa svo áhugaverðar bækur að allur minn aukatími fer í það..Flugdrekahlauparinn er bók sem bara allir verða að lesa. Gerist í Afganistan og USA. Get ekki lýst því hversu mikil áhrif hún hefur á mig bókin sú. Svo eru Rimlar hugans enn á náttborðinu síðan í janúar og er ég alltaf að grípa í hana og lesa suma kaflana aftur og aftur. Las úr henni í Æðruleysismessu sem var hér í kirkjunni á sunnudagskvöld, hefði verið gaman að sjá fleiri í messunni og held ég að hún hafi ekki verið nægilega vel auglýst. Magnús Gamalíels, prestur á Dalvík, flutti hugvekju og sagði okkur sögu sína sem var alveg magnað að hlusta á. Alveg sama hversu marga óvirka alka ég heyri tala, ég er alltaf jafn upprifin.
Konni skaust suður með okkur mæðgur á miðvikudagskvöld, þar sem hann uppgötvaði að við erum bæði með moll- og útsöluheilkenni.. Alveg makalaust hvað við komumst yfir að gera mikið og skoða margt á einum degi. Keyptum okkur grímur og dót fyrir öskudaginn og tókum smá forskot á sæluna og settum herlegheitin upp í IKEA og komum svo út í bíl til Konna sem beið þar, og var auðvita alveg gáttaður á okkur og örugglega fleiri sem sáu okkur. En honum var líka skemmt og það var tilgangurinn.
Ellen Helga kom svo norður með okkur á fimmtudagskvöld og var leiðinda skafrenningur víða á leiðinni.
Ellen og Harpa gistu svo hjá ömmu Siggu og afa Konna um helgina og Perla hundur líka, sem nú heitir Perla Eyjafjarðasól í höfuðið á mér, en þær systur Freyja og Lena ákváðu nafnbreytinguna í suðurferðinni og sögðu að lengra kæmist ég ekki í að eignast nöfnu fyrir ömmubarn, ég yrði að gera mér þetta að góðu. Þær voru ekki tilbúnar að fara alla leið og skíra Hundinn Sigríði Eyjafjarðasól. Ég var mjög fegin því einhverra hluta vegna langar mig ekki til að hundur sé skírður í höfuð mitt, en ég fæ víst engu ráðið um þetta.
Áttum góða helgi með fjölskyldunni og bökuðum og átum fullt af bollum, allt of mikið en það er nú bara bolludagur einu sinni á ári. Ellen fór svo heim glöð með heimsóknina um hádegi á mánudag.
ójá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)